Stök frétt

För eftir utanvegaakstur við Vigdísarvallaleið

Mikið hefur borið á vandamálum tengt utanvegaakstri á Reykjanesskaga og í nágrenni Höfuðborgarsvæðisins á undanförnum misserum. Nýlega fjallaði RÚV um slæmar skemmdir sem orðið hafa á grónu landi meðfram Leirvogsá, en vandamálið er alls ekki einskorðað við það svæði.

Frá áramótum hefur Umhverfisstofnun borist ítrekað ábendingar frá almenningi um tilfelli þar sem ökutækjum, aðallega mótorkrosshjólum og fjórhjólum/sexhjólum, hefur verið ekið utan vega og skemmdir orðið á náttúru Reykjanesskaga.  Þá hafa landverðir stofnunarinnar einnig tekið eftir akstri utan vega á mörgum svæðum, t.d. við Hengil og Vífilsfell, Breiðdal, við Kleifarvatn, Miðdegishnjúk, Sogið, Borgarfjall og Nátthaga, á fjölmörgum svæðum meðfram veg 428 (Vigdísarvallavegur). Auk ofangreindra svæða hefur ítrekað heyrst af akstri utan vega í Sandvík, vestast á skaganum.  Í mörgum tilfellum er um að ræða afar áberandi og djúp för þar sem farið er upp fjallshlíðar og yfir fjallstoppa, auk þess sem ekið er um á ýmist grónum eða lítið grónum söndum. Nýjasta dæmið er sundurspóluð hlíð í fjallinu Slögu, rétt austan Grindavíkur, sem meðfylgjandi mynd var tekin af nú um helgina. 

Á tímum Covid-19 hafa áhrif erlendra ferðamanna á náttúru landsins minnkað, en á sama tíma hefur umferð íslenskra gesta aukist verulega, sérstaklega á Suðvesturlandi og Suðurlandi.

Umhverfisstofnun stefnir að halda fund með lögreglu og sveitarfélögum, sem og öðrum aðilum  sem geta hjálpað til við að stöðva þetta langvarandi og sívaxandi vandamál.

Samkvæmt Náttúruverndarlögum er akstur vélknúinna ökutækja bannaður í náttúru Íslands.  Vert er að benda á að akstur á göngustígnum, reiðstígum og slóðum sem ekki eru skráð sem vegir telst sem akstur utan vega. Ólögmætur akstur utan vega varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

 

För eftir utanvegaakstur við Vigdísarvallaleið