Stök frétt

Skráning er hafin á skotvopna- og veiðikortanámskeið Umhverfisstofnunar. Öll námskeiðin verða kennd í fjarkennslu. Boðið verður upp á bókleg og verkleg próf vítt og breitt um landið. 

Stafræn veiðinámskeið

Í fyrsta sinn verða nú öll skotvopna- og veiðinámskeið Umhverfisstofnunar kennd í fjarkennslu. Nemendur geta því tekið þátt í námskeiðunum óháð staðsetningu.

Mynd: Veiðinámskeið Umhverfisstofnunar verða kennd í fjarkennslu og það verður hægt að taka prófin víðsvegar um landið.

Fleiri próftökustaðir

Bókleg próf verður hægt að taka á fræðslumiðstöðvum vítt og breitt um landið og á Háskólasvæðinu í Reykjavík. Þegar nemendur skrá sig á námskeið velja þeir próftökustað og -tíma. 

Prófin verða stafræn og nemendur taka þau á eigin snjalltæki undir yfirsetu starfsfólks. 

Verkleg þjálfun á skotvelli

Þegar nemendur skrá sig á námskeið geta þeir valið sér skotvöll fyrir verklega þjálfun og í flestum tilfellum tímasetningu. Á smærri stöðum fer tímasetning verklegrar þjálfunar eftir eftirspurn. 

Nauðsynlegur undirbúningur

Nemendur sem ætla að sækja skotvopnanámskeið þurfa að hefja undirbúning tímanlega. Þeir þurfa að skila inn gögnum til lögreglu með að minnsta kosti viku fyrirvara. Nemendur þurfa m.a. að skila inn læknisvottorði, hreinu sakavottorð og passamynd. Nánar um undirbúning

Um skotvopnanámskeiðin

Skotvopnanámskeiðin eru fyrir þá sem vilja sækja um skotvopnaleyfi. Enginn má eiga eða nota skotvopn á Íslandi án þess að hafa slíkt leyfi. 

Bóklegi hluti námskeiðsins fer fram á tveimur kvöldum, 4 klst í senn. Nemendur velja sér tímasetningu fyrir bóklegt próf hjá fræðslumiðstöð og verklega þjálfun á skotvelli. 

Umhverfisstofnun sér um skotvopnanámskeiðin í samstarfi við Ríkislögreglustjóra. 

Um veiðikortanámskeiðin

Veiðikortanámskeiðin eru ætluð þeim sem vilja sækja um veiðikort. 

Veiðikort gefur almenn réttindi til þess að stunda skotveiðar á Íslandi samkvæmt íslenskum lögum. Allir sem hyggjast stunda almennar fugla-, refa- eða hreindýraveiðar verða að vera handhafar veiðikorts og bera kortið á sér á veiðum. 

Veiðikortanámskeiðið er kennt í einni lotu og tekur um sex klukkustundir (með hléum). 



 

 

Tengt efni: