Stök frétt

Mynd: Rory Hennessey - Unsplash

Undanfarin ár hefur Umhverfisstofnun birt losunarstuðla sem einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og aðrir geta nýtt sér til að reikna losun gróðurhúsalofttegunda frá hinum ýmsu þáttum eins og t.d. samgöngum, úrgangi og orkunotkun.

Markmiðið með útgáfu losunarstuðlanna er að aðstoða sem flesta við að fá haldbæra mynd af losun síns reksturs eða annarra athafna. Með því að nýta sér þessa stuðla gefst notendum tækifæri til að tryggja að upplýsingar um þeirra losun sé í samræmi við þær reiknireglur sem gilda í Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda, sem íslensk stjórnvöld taka saman og skila til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), sjá nánar hér.

Í þessari nýjustu útgáfu hefur losunarstuðli fyrir raforkuframleiðslu fyrir árið 2021 verið bætt við auk losunarstuðuls vegna niturlosunar við áburðarnotkun. Þá hafa losunarstuðlarnir verið uppfærðir miðað við uppfærðan hnatthlýnunarmátt mismunandi gróðurhúsalofttegunda hjá Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC).

Losunarstuðlana og helstu upplýsingar um þá má finna hér.