Stök frétt

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir - Látrabjarg

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2018-2021 var kveðið á um átak í friðlýsingum. Átakið fól m.a. í sér vinnu að friðlýsingum svæða á náttúruverndaráætlunum, svæðum í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, svæði undir álagi ferðamanna og stækkun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Að auki bárust tillögur að friðlýsingum frá heimafólki og sveitastjórnum. Nú hefur Umhverfisstofnun í samráði við umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið tekið saman upplýsingar um þá vinnu sem var unnin í átakinu. Samantektina má finna í skýrslu sem nú hefur verið birt á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

Almennt má segja að friðlýsingavinna sé farsælt samstarf allra hlutaðeigandi og í flestum tilfellum má sætta ólík sjónarmið með virku samtali sem miðar að því að ná sameiginlegri niðurstöðu. Helstu hindranir í framgangi friðlýsingaverkefna felast í að leita málamiðlana þegar ólíkir hagsmunir mætast. Eftir því sem stærri landsvæði eru undir í friðlýsingaferli því stærri verður hópur hagsmunaaðila og þeim mun meiri áskorun að ná fram sáttum hinna ólíku hópa. Það er þó ætíð markmið yfirvalda að vinna að sátt því með þeim hætti næst bestur árangur. 

Með tilkomu laga nr. 60/2013 um náttúruvernd var kynning og málsmeðferð friðlýsinga gerð markvissari. Vinna við B-hluta náttúruminjaskrár stendur enn yfir og Umhverfisstofnun bindur miklar vonir við að breytt málsmeðferð verði jafn árangursrík. Þar er gert ráð fyrir aðkomu sveitarstjórna, náttúruverndarnefnda, náttúrustofa, annarra opinberra aðila og hagsmunaaðila snemma í ferlinu. Aukið samtal við landeigendur, sveitarfélög og aðra hagaðila í upphafi ferlisins getur bæði aukið áhuga á friðlýsingum sem og gagnkvæman skilning á þeim hagsmunum sem felast í náttúruvernd og hóflegri nýtingu, öllum til hagsbóta.

Skýrslan: Samantekt um átak í friðlýsingum 2018-2021

Tengt efni:
Um friðlýsingar
Um náttúruverndarsvæði

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir