Iðnaður í ETS

Stofnun viðskiptakerfisins með tilskipun 2003/87/EB fól í sér að losun koldíoxíðs (CO2) frá tiltekinni starfsemi (m.a. orkuframleiðslu með brennslu jarðefnaeldsneytis, járnframleiðslu og járnvinnslu) var gerð háð losunarheimildum frá 1. janúar 2005. Viðskiptakerfið hefur sumsé verið starfrækt frá ársbyrjun 2005 en því hefur verið skipt upp í mismunandi tímabil. Fyrsta tímabilið var frá 2005 til loka árs 2007. Annað tímabil kerfisins samsvarar skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar, 2008-2012. Fjöldi heimilda innan viðskiptakerfisins á því tímabili tók mið af fjölda heimilda sem gefnar voru út í samræmi við bókunina og var úthlutun til fyrirtækja innan kerfisins ákveðin í hverju ríki fyrir sig út frá svokölluðum landsbundnum úthlutunaráætlunum. Um og yfir 11.000 fyrirtæki á sviði orkuframleiðslu, olíuhreinsunar, járn- og stál framleiðslu, sem og brennsluver og fyrirtæki í framleiðslu á sementi, kalki, gleri, múrsteina, keramikgleri, pappír, pappírsdeigi, og bylgjupappa féllu undir viðskiptakerfið á öðru tímabili. Samanlagt stafar um það bil helmingur allrar losunar á koldíoxíði og um það bil 40% allra gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins frá þessum 11.000 fyrirtækjum.

 Þriðja viðskiptatímabilið hefst í ársbyrjun 2013 og stendur fram til ársins 2020. Á tímabilinu mun fyrirtækjum í olíuefna-, ammoníaks- og málmiðnaði (þ.m.t. álverum og járnblendiverksmiðjum) verða bætt við, sem og fleiri gróðurhúsalofttegundum (PFC og N2O). Þessi breyting á gildissviði kerfisins er mjög þýðingarmikil fyrir Ísland.

 Fyritæki innan viðskiptakerfisins fá ákveðnum fjölda losunarheimilda úthlutað án endurgjalds á viðskiptatímabilinu 2013 – 2020. Heildarfjöldi úthlutaðra losunarheimilda dregst saman með tímanum sem þ.a.l. stuðlar að samdrætti í losun. Árið 2020 er áætlað að losun fyrirtækja innan viðskiptakerfisins verði 21% minni en árið 2005. Eftir því sem dregið er úr endurgjaldslausri úthlutun þurfa fyrirtæki að leita annarra leiða til að eiga heimildir fyrir losun sinni. Þetta geta þau annaðhvort gert með því að þróa leiðir til að draga úr losun ellegar kaupa viðbótarheimildir á markaði eða opinberu uppboði. Með þessu fæst hagrænn hvati fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Árlega er fyrirtækjum svo gert skylt að framvísa losunarheimildum sem samsvara heildarmagni raunlosunar. Í flestum tilvikum fá fyrirtæki úthlutað heimildum sem duga einungis fyrir ákveðnum hluta af væntanlegri losun. Sökum þess standa fyrirtæki frammi fyrir þeirri ákvörðun að kaupa viðbótarlosunarheimildir, koma fyrir búnaði eða breyta aðferðum til að draga úr losun eða, ef nauðsyn þykir, draga úr framleiðslu. Ef fyrirtæki afhendir ekki tilskilinn fjölda losunarheimilda ber viðkomandi ríki að knýja fram efndir með viðurlagaákvæðum, m.a. með álagningu sekta.