Dómnefnd hefur lokið störfum og voru verðlaun afhent fimmtudaginn 20. desember síðastliðinn.
Um það bil 80% þeirra sem sækja Ísland heima koma að Gullfossi. Árið 2011 komu u.þ.b. 567.000 ferðamenn og er áætlað að þeim fjölgi árið 2012. Til þess að umhverfi Gullfoss skaðist ekki við aukin átroðning hefur verið farið í ýmis konar framkvæmdir s.s. uppbyggingu göngustíga. Til þess að undirbúa svæðið fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna mun þurfa að deiliskipuleggja friðlýsta svæðið umhverfis Gullfoss og hlaut Umhverfisstofnun styrk árið 2012 úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða hjá Ferðamálastofu til þess að halda hugmyndasamkeppni um svæðið.
Markmið með samkeppninni var að fá fram heildarsýn á allar samgöngur og móttökusvæði innan samkeppnissvæðisins og taldi stofnunin mikilvægt að hugmyndir þátttakenda væru í anda sjálfbærrar þróunar.
Höfundar: Eyrún Margrét Stefánsdóttir arkitekt og María Björk Gunnarsdóttir arkitekt
Dómnefndarálit: Keppendur hafa greinilega sett sig vel inn í staðhætti. Heildarsýn er ágæt og rökstudd með nákvæmri staðháttargreiningu. Keppendur sýna í tillögunni nákvæman og blæbrigðaríkan skilning á umhverfinu.
Útsýnisstaðurinn Tómas er vel valinn m.t.t. útsýnis og fleiri þátta sem máli skipta. Leiðir að nýjum útsýnisstöðum og nýjum tengingum eru fjölbreyttar og spennandi og benda á nægan efnivið til úrvinnslu í framtíðinni. Tillaga að nýjum útsýnisstað umhverfis svonefndan Hvít er vel útfærð en heppilegt hefði verið að sjá tengingu til norðurs við aðra göngustíga.
Höfundar: R21 arkitekter: Bergur Thorsteinsson Briem arkitekt, Thomas Thorsnes arkitekt, Martin Smedsrud arkitekt
Dómnefndarálit: Keppendur hafa greinilega sett sig vel inn í staðhætti, þa.e. staðháttargreining er nákvæm og sýnir ítarlega landslagsgreiningu sem er til fyrirmyndar. Lausnin er einföld og sveigjanleg og gæti vel nýst sem fyrirmynd að lausnum á öðrum stöðum og í ólíku umhverfi. Tröppur og útsýnispallur virðast raunhæfar og traust mannvirki án þess að vera yfirþyrmandi.
Höfundar: Birgir Þröstur Jóhannsson arkitekt FAÍ, Laurent Ney verkfræðingur, Vincent Dister verkfræðingur, Snæfríð Þorsteins iðnhönnuður
Dómnefndarálit: „Svífandi göngustígar“ virðast burðarfræðilega vel útfærðir og samræmast vel tilgangi samkeppninnar um afturkræfni framkvæmda. Áhugavert er að endurvekja útsýnisstað við svonefnda Heljarbrú. Rökstuðning um efnisval m.t.t. sjálfbærni er haldgóður.
Verðlaunahafar og dómnefnd ásamt Kristínu Lindu forstjóra Umhverfisstofnunar