Stök frétt

Í ljósi umræðu, þar sem borið hefur á þeim sjónarmiðum að loftslagsbreytingar, hlýnun af manna völdum, eigi sér ekki stað – eða að umræða vísindamanna um þau mál litist af ýkjum – vill Umhverfisstofnun árétta að loftslagsbreytingar eru staðreynd. Mýmargar rannsóknir sýna að svo er. Áhrifin verða alvarleg ef ekki verður gripið í taumana.

Í skýrslu vísindanefndar frá 2018 um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi segir m.a. af súrnun sjávar, sjávarstöðubreytingum og áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá. Þar segir að upp úr miðbiki 19. aldar hafi orðið ljóst að vissar lofttegundir raska varmageislun frá jörðinni þannig að neðri hluti lofthjúpsins og yfirborð jarðar verði hlýrri en ella. Þessi áhrif eru kölluð gróðurhúsaáhrif og lofttegundirnar gróðurhúsalofttegundir. Hlýnun jarðar sé óumdeilanleg og bendi margar athuganir til fordæmalausa breytinga frá því um miðbik síðustu aldar. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafi hlýnað, dregið hafi úr magni og útbreiðslu snævar og ís, sjávarborð hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist.

Hvað þýðir það fyrir Ísland?

Ísland liggur á mörkum kaldtempraðs- og heimskautaloftslags. Í samanburði við staði á sömu breiddargráðu er hér hlýrra, árstíðasveifla minni en úrkoma meiri. Rannsóknir sýna að á nútíma (frá síðasta jökulskeiði) hefur spönn langtímabreytinga á Íslandi verið um 4°C sem eru mun meiri hitabreytingar en á jörðinni á sama tíma. Síðustu þúsundir ára kólnaði á landinu, en þó skiptust á hlýrri og kaldari tímabil. Kaldasta tímabil nútíma virðist hafa verið á litlu-ísöld sem lauk í upphafi 20. aldar.

Íslenskir jöklar náðu mestri útbreiðslu í lok 19. aldar. Síðan hafa þeir hopað mikið og flatarmál þeirra dregist saman um nálægt 2000 km2 sem er um 15% samdráttur. Hörfunin átti sér einkum stað á tveimur tímabilum, í hlýindum á 3. og 4. áratug síðustu aldar og frá 1995. Á tímabilinu 2000 til 2014 nam samdrátturinn rúmlega 500 km2, eða um 0,35% á ári. 

Súrnun hafsins er einnig staðreynd, staðfest með beinum mælingum og fræðilegum reikningum. Til að komast hjá stórfelldum breytingum á lífríki og vistkerfum í höfunum þarf að minnka losun CO2 stórlega. Framtíð hafsins ræðst af því hvernig losun manna á koltvíoxíði verður háttað og til hvaða aðgerða verður gripið fyrr en síðar. Súrnun sjávar hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins og skelfiskræktun.

Lesa má nánar um loftslagsmál og áhrif þeirra á Íslandi hér.