Viðskiptakerfi ESB - ETS

Árið 2005 kom Evrópusambandið á fót viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda í tengslum við mótvægisaðgerðir að hálfu ESB samkvæmt Kyoto bókuninni. Viðskiptakerfið, í almennu máli nefnt ETS (stendur fyrir Emission Trading System), gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum því kerfið er helsta stjórntæki sambandsins til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Á þessari síðu má finna almennar upplýsingar um viðskiptkerfi ESB með losunarheimildir en ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Lög og reglur er viðkoma viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir má finna hér.

Uppbygging kerfisins

Viðskiptakerfið byggir á svokallaðri “cap and trade” hugmyndafræði hagfræðinnar. Í grófum dráttum virkar kerfið þannig að takmörk eru sett á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstraraðilum og flugrekendum sem falla undir viðskiptakerfið. Þessum fyrirtækjum er úthlutað  losunarheimildum* í samræmi við staðlaðar reglur og þeim síðan heimilað að eiga viðskipti með þær. Heildarfjöldi heimilda í kerfinu samsvarar þeim takmörkunum sem settar eru í upphafi. Hluta heimilda er úthlutað endurgjaldslaust, og hluti þeirra annarsvegar seldur á uppboði og hinsvegar komið fyrir í varasjóði sem ætlaður er nýstofnuðum fyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem vilja auka framleiðslu sína verulega. Vægi uppboðanna mun aukast eftir því sem á líður og þ.a.l. mun endurgjaldslaus úthlutun dragast saman sem nemur samsvarandi aukningu uppboðsheimilda.

Eftir því sem dregið er úr endurgjaldslausri úthlutun þurfa fyrirtæki að leita annarra leiða til að eiga heimildir fyrir losun sinni. Þetta geta þau annaðhvort gert með því að þróa leiðir til að draga úr losun ellegar kaupa viðbótarheimildir á markaði eða opinberu uppboði. Með þessu fæst hagrænn hvati fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Myndbandið hér að neðan gefur ágætis yfirlit varðandi hugmyndafræðina að baki kolefnismörkuðum:

 

ETS kerfið starfar í öllum 28 aðildarríkjum ESB, auk EFTA ríkjanna Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

 

Iðnaður

Undir viðskiptakerfið féllu 11.401 einingar í staðbundnum iðnaði árið 2015. Umfang kerfisins eru allar brennslustöðvar yfir 20MW og allar stöðvar sem tilgreindar eru í viðauka I í tilskipun ESB frá 2003. Heildarlosun þessara stöðva árið 2015 jafngilti 1.800 Mt af CO2.

Hægt er að skipta staðbundnum iðnaði niður í átta meginflokka, byggt á helstu starfsemi þeirra:

  • Brennsla eldsneytis (aðallega raforkuframleiðsla auk ýmiss framleiðsluiðnaðar)
  • Hreinsunarstöðvar
  • Járn og stál, koks og málmgrýtiframleiðsla
  • Sement, sementsgjall og kalk framleiðsla
  • Önnur málmlaus efni (gler, keramik, steinefni, ull og gifs)
  • Framleiðsla á pappírsdeigi og pappír
  • Framleiðsla á efnum
  • Önnur starfsemi

Brennsla eldsneytis er aðal framleiðslan í iðnaðinum, 61% iðnaðarins er í þeim geira og losunin er um 68% af vottuðum losunarheimildum. Í öðru sæti er framleiðsla á sementi, sementgjalli og kalki eða um 8% allrar losunar.

Losunin í viðskiptakerfinu stjórnast af litlum hópi stórra losenda. Af þeim 9.000 einingum í staðbundnum iðnaði sem greint var frá í tengslum við 21.gr ETS tilskipunarinnar, losa 72% eininganna frá sér minna en 50.000 MT af CO2 og eru einungis ábyrgar fyrir 10% af heildarlosuninni.

 

Flug

Flug hefur verið hluti af viðskiptakerfinu frá árinu 2012. Að jafnaði ætti allt flug til og frá aðildarríkum ESB auk Íslands, Noregs og Liechtenstein að vera innan kerfisins, en í raun tekur það einungis á flugi innan EES svæðisins í dag. Ástæðan er reglugerð sem sett var á árið 2013 og síðan framlengd til ársins 2023 til þess að auðvelda fyrir samningaviðræðum um markaðstengt fyrirkomulag á alþjóðavettvangi, CORSIA. Kerfið nær einungis til flugrekenda í atvinnurekstri sem losa yfir 10.000 tonn af CO2 á ári og flugrekenda sem að eru ekki í atvinnurekstri og yfir 1.000 tonn af COá ári.

Virkir flugrekendur innan ETS árið 2015 voru 776 og þar af 4 í umsjá Íslands.

 

CORSIA

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) samþykkti árið 2016 að koma á fót alþjóðakerfi varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi sem að byggir á sambærilegri hugmyndafræði og ETS kerfið.  Þetta kerfi virkar þannig að öllum ríkjum heims er boðið að skuldbinda sig til að taka þátt, og þegar þau hafa skuldbundið sig til þátttöku þá þurfa þeir flugrekendur í þeim ríkjum að halda utan um og gera upp losun til og frá sínu ríki og annarra ríkja sem taka þátt í kerfinu. Í maí 2019 hafa 79 ríki skuldbundið sig til þátttöku, þar með talið öll ESB ríkin, en einnig stór ríki eins og Ástralía, Kanada, Japan, Mexíkó, Tyrkland og Bandaríkin. Kerfið mun taka gildi frá og með 1. janúar 2021 en flugrekendur eru þegar farnir að vakta alla losun, þar sem losun áranna 2019 og 2020 mun vera ákveðin gagnaöflun fyrir grunnlínu (e. baseline). Flugrekendur þurfa síðan að standa skil á allri losun sem fer umfram meðaltalslosun þessara tveggja ára frá og með árinu 2021.

Til að koma í veg fyrir tvítalningu heimilda og til einföldunar og minnkunar á stjórnsýslubyrði bæði fyrir flugrekendur og lögbær stjórnvöld mun regluverk CORSIA verða innleitt inn í ETS tilskipunina, auk þess sem að reglur um vöktun og skýrslugjöf eru aðlagaðar að regluverki ICAO.

Frekari upplýsingar um CORSIA má finna hér: https://www.icao.int/environmental-protection/CORSIA/Pages/default.aspx

 

Skip

Frá árinu 2018 hafa stór skip sem að leggja við hafnir innan ESB einnig verið hluti af viðskiptakerfinu. Árleg losun COvegna sjóflutninga er um 1.000 milljón tonn á ári, og ber ábyrgð á um 2,5% heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Því þurfa stór skip (yfir 5.000 GT) að vakta losun á leiðum á ferðum til, frá og á milli hafna innan ESB, og skila inn árlegri losunarskýrslu líkt og flugrekendur og iðnaður frá 1. janúar  2018.  Eins og staðan er í dag munu  þó engin skip vera í umsjá Íslands, þar sem að þau íslensku skip sem að ná þessari þyngd og myndu falla undir kerfið eru skráð með heimahöfn í öðrum ríkjum.

 

Losunarheimildir

Ein losunarheimild* samsvarar einu tonni af co2 sem er losað út í andrúmsloftið. Viðskiptin fara fram á þar til gerðum markaði með losunarheimildir, en flugrekendur og rekstaraðilar þurfa að tryggja að þeir eigi nægjanlegt magn losunarheimilda þegar kemur að uppgjöri þeirra í lok apríl ár hvert.

Flestir aðilar í kerfinu eiga rétt á endurgjaldslausum losunarheimildum og úthlutun þeirra byggir almennt á sögulegri framleiðslu fyrirtækja sem og svokölluðum árangursviðmiðum, sem skilgreind voru með ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Árangursviðmið er tölulegt gildi sem endurspeglar meðalárangur þeirra fyrirtækja sem hafa staðið sig best við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu á tiltekinni vöru eða þjónustu. Frá og með árinu 2013 hefur ákvörðunin um fjölda heimilda verið alfarið í höndum framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, þó svo að tölulegar forsendur ákvörðunarinnar komi frá aðildarríkjum.

Heildarfjöldi úthlutaðra losunarheimilda dregst saman með tímanum sem þ.a.l. stuðlar að samdrætti í losun, og verður línuleg lækkun úthlutunar 2,2% á ári frá og með árinu 2021. Árið 2020 er áætlað að losun fyrirtækja innan viðskiptakerfisins verði 21% minni en árið 2005.

 

Kolefnismarkaður

Vettvangur viðskipta með losunarheimildir er oftast nefndur kolefnismarkaður (carbon market) og viðskipti á honum fara fram bæði í kauphöllum sem og utan skipulagðra markaða (over-the-counter trade). Einstaklingum sem og öðrum aðilum sem ekki falla beint undir lög um viðskiptakerfi með losunarheimildir er einnig heimilt að stunda viðskipti á þessum markaði.  Tilgangur slíkra viðskipta er margvíslegur en t.a.m. er hægt að kaupa heimildir og óska þess að þeim verði eytt. Eins og á við um aðra markaði ræðst verð á heimildum af lögmáli um framboð og eftirspurn og því hefur verð losunarheimilda farið ört hækkandi á undanförnum misserum, þar sem færri slíkar heimildir eru nú í boði.

Í viðskiptakerfi ESB eru það svokallaðar Evrópusambandsheimildir (European Union Allowances, EUA) sem er aðallega verslað með. EUA einingarnar, sem er stærsti hluti þeirra eininga sem þátttakendur í viðskiptakerfinu nota koma frá Evrópusambandinu. Stór hluti þessara eininga er boðinn upp á uppboðsvettvangi, en hluta eininganna er úthlutað endurgjaldslaust til flugrekanda og rekstraraðila. Ágóði af sölu losunarheimilda á uppboði fer til ríkjanna í verkefni tengd loftslags og orkumálum, með það að markmiði að draga úr losun.

 

Vöktun, skýrslugjöf og uppgjör

Fyrirtæki sem falla undir viðskiptakerfið krafin um að hafa eftirlit með og skrá árlega losun sína á gróðurhúsalofttegundum. Þeir vakta losunina samkvæmt vöktunaráætlun sem samþykkt er af Umhverfisstofnun. Raunlosun er síðan vottuð af óháðum aðilum og losunarskýrsla send árlega til Umhverfisstofnunar. Síðan þurfa fyrirtækin að gera upp losunina í formi losunarheimilda sem samsvara  heildarmagni raunlosunar. Ef fyrirtæki afhendir ekki tilskilinn fjölda losunarheimilda ber viðkomandi ríki að knýja fram efndir með viðurlagaákvæðum, m.a. með álagningu sekta.

 

Tímabil kerfisins

Viðskiptakerfið hefur verið starfrækt frá ársbyrjun 2005 en því hefur verið skipt upp í mismunandi tímabil. Fyrsta tímabilið var frá 2005 til loka árs 2007. Annað tímabil samsvarar skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar, 2008-2012, en fjöldi heimilda innan viðskiptakerfisins á öðru tímabili tekur mið af fjölda heimilda sem gefnar voru út í samræmi við bókunina. Þriðja tímabilið hófst svo í ársbyrjun 2013 og stendur fram til ársins 2020. Fjórða tímabilið mun svo hefjast árið 2021 og standa til ársins 2030.

* Ein losunarheimild jafngildir einu tonni af koldíoxíði (CO2) eða ígildi þess.  Þrjár lofttegundir eru flokkaðar sem gróðurhúsalofttegundir og falla undir viðskiptakerfið en áhrif þeirra á hlýnun jarðar eru mismunandi.  Til einföldunar hafa áhrif hverrar gastegundar verið reiknuð til samanburðar við áhrif COog því er almennt vísað til þessara gastegunda sem ígilda CO2.