Umhverfistofnun - Logo

Losun annarra loftmengunarefna

Önnur loftmengunarefni sem losna á Íslandi eru ammóníak (NH3) sem kemur að mestu úr landbúnaði, svifryk (PM2,5, PM10 og TSP) sem kemur aðallega frá iðnaði, vegasamgöngum og fiskiskipum og sót (BC) sem kemur mestmegnis frá fiskiskipum.

Að auki eru óbeinar gróðurhúsalofttegundir sem stuðla að hnattrænni hlýnun (SOx, NOx, NMVOC og CO). Þær hafa áhrif á myndun og líftíma gróðurhúsalofttegunda ásamt því að hafa áhrif á eiginleika andrúmsloftsins. Einnig hafa óbeinar gróðurhúsalofttegundir skaðleg áhrif á heilsu fólks. Helstu uppsprettur óbeinna gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er frá jarðvarmavirkjunum (SOx), fiskiskipum (NOx), vegna notkunar leysiefna (NMVOC) og frá áliðnaði (CO).

Bókhald Umhverfisstofnunar heldur utan um eftirfarandi efni

 • Óbeinar góðurhúsalofttegundir
  • Brennisteinsdíoxíð – SOx (SO2)
  • Köfnunarefnisdíoxíð – NOx (NO2)
  • Rokgjörn, lífræn efnasambönd – NMVOC (non-methane volatile organic compounds)
  • Kolmónoxíð – CO
 • Ammóníak – NH3
 • Svifryk – TSP, PM10, og PM2,5 (total suspended particulate og particulate matter)
 • Sót – BC (black carbon)

 

 

 

SOx

NOx

NMVOC

CO

 

[kt] SO2

[kt] NO2

[kt]

[kt]

1990

24

31

10,0

72

2019

58

21

5,3

107

Breyting

143%

-32%

-47%

48%

 

Bennisteinsdíoxíð – SO2 (SOX)

Losun á SOx er fyrst og fremst frá jarðvarmavirkjunum og málmiðnaði. Í jarðvarmavirkjunum losnar brennisteinsvetni (H2S) þegar jarðhiti er unninn úr jörðu. Hluti þess oxast yfir í SO2. Aukning hefur átt sér stað í losun síðan 1990 vegna aukinnar orkuframleiðslu jarðvarmavirkjana. Síðustu ár hefur losunin þó minnkað í kjölfar Sulfix verkefnisins þar sem brennisteinsvetni er dælt niður í jörðu.

 

Köfnunarefnisdíoxíð – NO2 (NOx)

Stærstu uppsprettur NOx losunar á Íslandi nú eru fiskiskip, samgöngur og málmiðnaður. Við eldsneytisbruna myndast köfnunarefnismónoxíð (NO) þegar köfnunarefni og súrefni hvarfast saman við hátt hitastig. Í andrúmsloftinu oxast svo köfnunarefnismónoxíð yfir í köfnunarefnisdíoxíð (NO2). Árið 1990 var losunin að mestu frá fiskiskipum og samgöngum. Dregið hefur úr losun á NOx frá 1990.

 

Rokgjörn, lífræn efnasambönd – NMVOC

Losun á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum (NMVOC) er aðallega frá landbúnaði og leysiefnanotkun. Árið 1990 var losunin mestmegnis frá vegasamgöngum, leysiefnanotkun og landbúnaði. Samdráttinn frá 1990 má að mestu leyti skýra með samdrætti í losun NMVOC frá vegasamgöngum.

 

Kolmónoxíð – CO

Losun á kolmónoxíði (CO) er einkum frá málmiðnaði. Árið 1990 var losunin aðallega frá samgöngum. Síðan 1990 hefur heildarlosunin aukist vegna aukinnar starfsemi í málmiðnaði. Losun frá samgöngum hefur þó minnkað töluvert vegna bættrar mengunarvarnartækni í ökutækjum.

 

 

 

NH3

TSP

PM10

PM2,5

BC

 

[kt]

[kt]

[kt]

[kt]

[t]

1990

5,0

4,5

2,5

1,4

330

2019

4,5

4,0

2,3

1,3

180

Breyting

-9,3%

-12%

-4,3%

-7,9%

-46%

 

Ammóníak – NH3

Losun á ammóníaki (NH3) er fyrst og fremst frá landbúnaði og hefur verið nokkuð svipuð síðan 1990.

 

Svifryk – TSP

Losun á TSP (total suspended particulate) er aðallega frá steinefnaiðnaði og vegasamgöngum. Eldgos losa mikið magn svifryks en eru ekki í þessum tölum þar sem hér er um að ræða losun af mannavöldum. Svifryk er þrískipt eftir stærð. TSP (agnir innan við 50-100 µm í þvermál), PM10 (agnir innan við 10 µm í þvermál) og PM2,5 (agnir innan við 2,5 µm í þvermál). Allt PM2,5 er innan PM10 og allt PM10 er innan TSP.

 

Svifryk – PM10

Losun á PM10 er aðallega frá iðnaði, vegasamgöngum og fiskiskipum. Losunin hefur verið nokkuð svipuð síðan 1990. Eldgos losa mikið magn svifryks en eru ekki í þessum tölum þar sem hér er um að ræða losun af mannavöldum. Svifryk er þrískipt eftir stærð. TSP (agnir innan við 50-100 µm í þvermál), PM10 (agnir innan við 10 µm í þvermál) og PM2,5 (agnir innan við 2,5 µm í þvermál). Allt PM2,5 er innan PM10 og allt PM10 er innan TSP.

 

Svifryk – PM2,5

Losun á PM2,5 er aðallega frá málmiðnaði, vegasamgöngum og fiskiskipum. Losunin hefur verið nokkuð svipuð síðan 1990. Eldgos losa mikið magn svifryks en eru ekki í þessum tölum þar sem hér er um að ræða losun af mannavöldum. Svifryk er þrískipt eftir stærð. TSP (agnir innan við 50-100 µm í þvermál), PM10 (agnir innan við 10 µm í þvermál) og PM2,5 (agnir innan við 2,5 µm í þvermál). Allt PM2,5 er innan PM10 og allt PM10 er innan TSP.

 

Sót – BC

Losun á sóti (BC) er að mestu frá fiskiskipum, vegasamgöngum og eldsneytisbruna vegna framleiðsluiðnaðar. Árið 1990 var losunin aðallega frá fiskiskipum, eldsneytisbruna vegna framleiðsluiðnaðar, úrgangi og vegasamgöngum. Heildarlosunin hefur minnkað síðan 1990. Samdráttinn í flokki úrgangs má að mestu rekja til minnkunar í losun frá brennslu sorps.

 

 

Ítarlegar upplýsingar um losun loftmengunarefna á Íslandi síðan 1990 má nálgast í nýjustu landsskýrslu um losun loftmengunarefna á Íslandi sem falla undir LRTAP samninginn (Informative Inventory Report).