Umhverfistofnun - Logo

Matvæli

Neysla matvæla er einn af þeim mikilvægu þáttum sem við getum breytt til að draga úr umhverfisáhrifum einstaklingsins og heimilisins. Í því samhengi skiptir máli bæði hvað við kaupum og hvernig við neytum. Framleiðsla matvæla og sóun matvæla hefur í för með sér álag á umhverfið.

Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á möguleika okkar til að framleiða matvæli með þeim afleiðingum að fæðuframboð minnkar. Á sama tíma hefur matvælaframleiðslan, flutningur matvæla og sóun matvæla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda.

Ef horft er til lífsferils matvæla má almennt segja að stærstu umhverfisáhrifin séu í framleiðslunni. Ef skoðuð er losun frá landbúnaði á Íslandi má sjá að stærsti hluti losunar kemur frá iðragerjun, þ.e.a.s. niðurbroti lífmassa í jórturdýrum (prump). Þetta má sjá greinilega þegar kolefnisspor ýmissa matvæla eru skoðuð, en þar er rautt kjöt iðulega með hæst kolefnisspor. Í töflunni má sjá dæmi um áætlað kolefnisspor matvælaflokka. Að sjálfsögðu er töluverður munur innan flokka og einhver skekkjumörk innan allra rannsókna.

Matvæli

Losun (kg CO2/kg)

Grænmeti

0,4

Ávextir

0,4

Mjólk

1,3

Fiskur

3,5

Kjúklingur

3,7

Ostur

8,6

Lambakjöt

26

Nautakjöt

27

 

Til að draga úr þeim áhrifum sem neysla matvæla hefur á loftslagið er því mælt með því að borða minna af rauðu kjöti. Fyrir þá sem ekki eru tilbúnir til að vera vegan eða grænkerar er hægt að byrja á að taka kjötlausan dag eða að borða frekar ljósara kjöt eða fisk. Þessar áherslur eiga einnig góðan samhljóm með ráðleggingum Landlæknis um mataræði þar sem þær eru almennt góðar fyrir heilsuna.

Til viðbótar við losun gróðurhúsalofttegunda frá matvælaframleiðslu er einnig notað mikið af vatni, varnarefnum, sýklalyfjum, landssvæði, orku og öðrum auðlindum til að framleiða mat. Því er mikilvægt að nýta hann vel og hugsa um þær auðlindir sem hafa farið inn í framleiðsluna.