Grunnafjörður

Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 en svæðið var samþykkt sem Ramsarsvæði árið 1996, alls 14,7 km2. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sérstaklega fuglalífið sem er mjög auðugt. Fjörðurinn er eina Ramsarsvæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Í Grunnafirði eru víðlendar leirur og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Leirur eru gjarnar auðugar af burstaormum svo sem sandmaðki og leiruskera og fer það eftir seltumagni hvaða tegund er ríkjandi. Nokkuð er um krækling og sandskel, fjöruflær og lónafló eru algengar.

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda til margir æðarfuglar. Margæs hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna vor og haust en fjörðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir ýmsa fargesti auk margæsar, t.d. rauðbrysting. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Um ósinn synda laxar á leið í Laxá í Leirársveit.