Þjórsárver

Þjórsárver eru ein víðáttumesta og afskekktasta gróðurvin á hálendi Íslands, um 140 km2 að flatarmáli. Sérstaða veranna og tilvist er fyrst og fremst vegna samspils jökla, vatns, jarðvegs, veðurfars, gróðurfars og dýralífs. Verin eru hluti mikilfenglegrar náttúru og landslagsheildar sem er að mestu leyti ósnortin.

Þjórsárver voru lýst friðland árið 1981 og samþykkt sem Ramsarsvæði 1990. Verin eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls og eru í um 600 m hæð yfir sjó. Friðlandið er alls um 375 km2 og gróðurlendi um 93 km2 en þar af er votlendi um helmingur. Gróðurvinjar hálendisins eru leifar samfellds gróðurs sem var áður fyrr miklu víðáttumeira og samfelldara en nú og eru heimkynni fjölda lífvera sem þrífast ekki í auðninni umhverfis. Þjórsárver er tegundaauðugasta hálendisvin landsins sem þekkt er og þar finnast fleiri tegundir en nokkurs staðar annars staðar á hálendi Íslands, en þar eiga flestir hópar lífvera fulltrúa. Í Þjórsárverum hafa t.d. fundist fjöldi háplantna (187), mosa (237) og fléttna (239) og 284 tegundir smádýra. Fuglalíf Þjórsárvera er ágætlega þekkt, einkum vegna rannsókna á heiðagæsum sem hafa staðið yfir í nær 60 ár. Í Þjórsárverum hafa verið skráðar 47 tegundir fugla og af þeim er talið að um 27 hafi orpið í verunum. Varpið er mest í votlendi. Heiðagæsavarpið í Þjórsárverum var lengi vel það langstærsta í heiminum en á síðustu árum hefur varppörum fækkað.

Fram á 18. öld voru heiðagæsastofnar í Þjórsárverum nýttir. Þegar gæsin var í sárum var henni smalað og hún rekin í réttir og enn má sjá minjar um slíkt í verunum. Slíkt þekkist ekki annarsstaðar á landinu. Álftir voru einnig teknar í Þjórsárverum og þeim slátrað.

Búsvæði í Þjórsárverum eru fjölbreyttari en í öðrum hálendisvinjum, s.s. flæðiengjar, tjarnastararflóar, gulstararflóar, brokflóar, flár með smágerðu mynstri rústa og tjarna, heiðagróður ýmiss konar, jurtastóð og háfjallagróður.

Þjórsárver eiga tilveru sína að þakka vatninu, jökulvatni jafnt sem lindarvatni. Vatn er allsstaðar, ár og lækir sem streyma á yfirborði, lindir og tjarnir. Í Þjórsárverum er að finna fjölbreyttasta rústasvæði landsins sem er sjaldgæft landslagsfyrirbæri sem verður til þegar ískjarni myndar stórar þúfur, rústir, í mýrlendi.

Í nokkurn tíma hafa legið frammi áætlanir um nýtingu vatnsafls í Þjórsárverum. Nú þegar hefur verið sett upp vatnsmiðlunarmannvirki, Kvíslaveita, í jaðri friðlandsins og eins hafa verið uppi áform um gerð Norðlingaölduveitu í nágrenni núverandi friðlands.