Stök frétt

Veiðistjórnunarsvið Umhverfissstofnunar byrjaði í dag að taka við veiðiskýrslum frá veiðimönnum vegna veiðinnar árið 2003. Veiðimenn sem hafa gefið upp netfang hjá Veiðistjórnunarsviði geta skilað skýrslunum með rafrænum hætti á vefnum og jafnframt sótt um nýtt veiðikort. Næstu daga munu þessir veiðimenn fá sendan tölvupóst með lykilorði sem þeir nota til þess að komast inn á skilavefinn. Hægt er að sækja um veiðileyfi á hreindýr við sama tækifæri og felst því mikil hagræðing í því fyrir bæði veiðimenn og Veiðistjórnunarsvið. Veiðimenn sem ekki hafa gefið upp netfang munu fá sent bréf næstu daga með skýrsluformi en á því er ennfremur að finna lykilorð sem þeir geta notað til að skila á vefnum. Þeir sem engan aðgang hafa að vefnum geta hinsvegar sent skýrsluna í pósti.

Undanfarin ár hafa rafræn skil veiðiskýrslna aukist jafnt og þétt og skiluðu 75% veiðimanna veiðiskýrslu á vefnum á síðasta ári. Alls eru sendar rafrænar skýrslur til 9929 veiðimanna og 7100 fá skýrsluna senda í bréfapósti.

Sett hefur verið upp 128 bita dulkóðun á skilavef Veiðistjórnunarsviðs sem hefur í för með sér enn frekara öryggi fyrir þá sem greiða fyrir veiðikortin með greiðslukorti.

15.12.1999

Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri veiðikorta og námskeiða, kreistir fram bros eftir að starfsmenn Veiðistjóra höfðu sett 15.700 veiðiskýrslur í umslög. Póstburðargjöld fyrir útsendingu á veiðiskýrslum 1999 voru upp á 630.000- krónur+vinna við að setja í umslög+prentun á umslögum og skýrslum. Við vonumst til að í rafrænni framtíð minnki þetta skýrslufjall svo meira sjáist í Bjarna!

15.12.2000

Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri veiðikorta og námskeiða, glaðbeittur eftir að starfsmenn Veiðistjóra höfðu sett 11.330 veiðiskýrslur í umslög. Póstburðargjöld fyrir útsendingu á veiðiskýrslum 2000 voru upp á 495.000- krónur+vinna við að setja í umslög+prentun á umslögum og skýrslum. Nú þegar sést meira í Bjarna en betur má ef duga skal! Við hvetjum veiðimenn til þess að hafa samband við okkur og gefa upp netfang svo hægt sé að gera þetta sem mest á rafrænan hátt.

15.12.2001

Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri veiðikorta og námskeiða, dreyminn á svip eftir að starfsmenn Veiðistjóra höfðu sett 8.998 veiðiskýrslur í umslög. Bjarna dreymir um að skýrslufjallið hverfi alveg á næstu árum! Póstburðargjöld fyrir útsendingu á veiðiskýrslum 2001 voru upp á 398.000- krónur+vinna við að setja í umslög+prentun á umslögum og skýrslum. Við þökkum kærlega þeim veiðimönnum sem hafa gefið okkur upp netfang sitt. Við vonum að netföngum eigi eftir að fjölga enn meira á þessu ári.

15.12.2002

Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri veiðikorta og námskeiða, alsæll eftir að starfsmenn Veiðistjóra höfðu sett 7.642 veiðiskýrslur í umslög. Bjarna bárust rúmlega 1.000 ný netföng á árinu 2002 og minnkaði það fjallið enn frekar. Takið eftir snyrtilegum klæðaburði Bjarna. Nú hefur hann mun meiri tíma fyrir sjálfan sig eftir að skýrslufjallið minnkaði! Verður fjallið horfið innan 5 ára? Og munu veiðimenn þá loksins fá að sjá skótískuna sem Bjarni aðhyllist?

 

15.12.2003

Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri veiðikorta og námskeiða, alsæll eftir að starfsmenn Veiðistjórnunarsviðs höfðu sett 7.194 veiðiskýrslur í umslög. Bjarna bárust nokkur hundruð ný netföng á árinu 2003 og bráðum verður skýrslufjallið farið til Múhammeðs! Bjarni hefur nú næstum of mikinn tíma til að snyrta sig. Takið eftir snyrtilegri skegglínunni, hver hefur tíma í svona lagað? Sjáumst að ári!