Stök frétt

Komin er út reglugerð sem takmarkar framleiðslu, innflutning, sölu og notkun raftækja sem innihalda tiltekin hættuleg efni frá og með 1. júlí 2006. Með reglugerðinni verður notkun nokkurra hættulegra þungmálma í raftækjum bönnuð svo sem blýs, kadmíums og kvikasilfurs auk sexgilds króms, fjölbrómdífenýla og fjölbrómdífenýletera. Þessi efni hafa borist út í umhverfið eftir förgun tækjanna og haft skaðleg áhrif á umhverfið og lífríkið. Efnin geta þar að auki verið hættuleg heilsu manna. Reglugerðin nær ekki til varahluta fyrir raftæki sem framleidd voru fyrir gildistöku hennar né endurnotkun raftækja. Ákveðin notkun þessara efna í raftækjum verður áfram heimil.

Í undirbúningi er að koma upp söfnunarkerfi fyrir raftækjaúrgang svo endurnýta og endurvinna megi sem mest af ónýtum raftækjum.