Stök frétt

Börn leika sér gjarnan á gólfinu þar sem efnaleifar safnast saman. / Mynd: Unsplash

Margir hafa áhyggjur af efnum í daglegu umhverfi okkar og er það skiljanlegt. Þúsundir efna eru í notkun og um mörg þeirra er lítið eða ekkert vitað, jafnvel fagfólk getur verið ósammála um hvort ástæða sé til að óttast þau. Fjölmiðlar birta okkur fréttir af áður óþekktum skaðlegum áhrifum efna á heilsu og umhverfi. Þótt upplýsingarnar séu ekki alltaf hárréttar, skapa þær umræðu og beina athygli að vandamálinu. Ef við höfum ekki yfirsýn yfir vandamálið getum við ekki varið okkur og börn okkar fyrir hættunni.

Þótt við vitum ekki allt, vitum við nóg til að geta sett okkur varúðarreglur

Vörur sem eru skaðlegar heilsu og umhverfi koma eftir ýmsum leiðum í híbýli okkar, t.d. þegar við kaupum málningu, skordýraeitur og þvottaefni, allt efni sem við vitum að geta verið skaðleg, eða þegar við kaupum hluti sem framleiddir eru úr efnum eða innihalda efni sem geta gufað upp eða lekið út í umhverfið. Dæmi um slíka hluti eru fatnaður og leikföng.

Mestri slysahættu valda efni sem hægt er að kaupa á flöskum og brúsum því óvitar geta drukkið þau eða gleypt.