Stök frétt

16. aðildarríkjafundur Montreal bókunarinnar var haldinn í síðustu viku í Prag í Tékklandi.

Montreal bókunin, eða Ósónsáttmálinn eins og hún stundum er kölluð, er alþjóðasamningur um efni sem eyða ósonlaginu. Montreal bókunin, sem gerð var við Vínarsamninginn frá 1985, er sérstök bókun um verndun ósonlagsins frá Montreal í Kanada 1987. Í dag hafa 183 ríki fullgilt bókunina. Montreal bókunin fjallar um efni sem eyða ósonlaginu uppi í heiðhvolfinu, þ.e. svokölluð klórflúorkolefni (CFC), halónar, vetnisklórflúorkolefni (HCFC), tetraklórmetan, metylbrómíð og fleiri svipuð halógensambönd. Íslendingar bönnuðu klórflúorkolefni á úðabrúsum þegar árið 1989. Í dag er að mestu bannað að flytja inn ósoneyðandi efni, en undanþeginn er innflutningur á ákveðnum HCFC efnum til notkunar í kæliiðnaðinn til ársloka 2014. Heiðrún Guðmundsdóttir sérfræðingur á stjórnsýslusviði Umhverfisstofnunar sótti fundinn af Íslands hálfu.

 

Nýjar rannsóknir

Á fundinum voru kynntar rannsóknir ýmissa tæknihópa sem starfa í tengslum við Montreal bókunina. Sýnt hefur verið fram á tengsl ósoneyðingar og loftslagsbreytinga, og er ljóst að ósoneyðingin hefur ekki aðeins skammtímaáhrif heldur einnig langtímaáhrif. Nú er farið að hægast á uppsöfnun ósoneyðandi efna í heiðhvolfinu, sérstaklega klórs, en bróm er ennþá að aukast. Uppspretta bróms er aðallega frá metýlbrómíði sem gufar upp af hrísgrjónaökrum vegna hækkandi hitastigs á jörðunni. Það hefur einnig komið í ljós að strjálbýl svæði, svifagnir og loftmengun geta aukið áhrif útfjólublárrar geislunar sólar.

Útfjólublá geislun hefur áhrif á heilsu manna. Helstu áhrifin eru húðkrabbamein, framleiðsla D-vítamíns og gláka. Það hefur nú verið staðfest að fylgni er á milli fjölgunar glákutilfella og aukinnar útfjólublárrar geislunar. Það hefur einnig verið sýnt fram á að eitt helsta staðgengilsefni fyrir kælimiðilinn CFC-11 sem er HCFC-123 hefur neikvæð áhrif á heilsu þeirra sem vinna með efnin.

Útfjólublá geislun hefur áhrif á vistkerfi á landi, en plöntur framleiða sólarvarnarefni í yfirborðslagi laufblaðana, svokölluð flavonoið litarefni. Þessi efni gera það að verkum að plöntuhlutarnir verða tormeltir fyrir skordýr og önnur dýr. Einnig hefur orðið vart við að örveruflóra jarðvegsins ræður ekki við að brjóta niður plöntuleifarnar, svo uppsöfnun verður af lífrænu efni. Margar aðrar lífefnafræðilegar breytingar, sem erfitt er að gera grein fyrir hér, verða í vistkerfum vegna þessa.

Útfjólublá geislun hefur áhrif á manngert umhverfi eins og byggingar. Það hefur lengi verið þekkt að útfjólublá geislun brýtur niður plastefni og eyðileggur náttúruleg litarefni. Í einum af fyrirlestrunum kom fram að menn yrðu að fara að huga að þróun plastefna sem væru ekki viðkvæm fyrir ljósefnafræðilegu niðurbroti útfjólublárrar geislunar.

 

Þróun Montrealbókunarinnar

Það sem helst bar til tíðinda á 16. aðildarríkjafundi Montreal bókunarinnar var samkomulag sem náðist um bráðanotkun á CFC í innöndunarlyfjum vegna astma og öndunarfærasjúkdóma, en notkun CFC í innöndunarlyf verður hætt innan fárra ára. Mikill fjöldi staðgengilsefna hefur komið fram og er ekki lengur talin þörf á að leyfa framleiðslu á CFC til lyfjagerðar í nánustu framtíð. Miklar umræður voru einnig um notkun útrýmingarefnisins metýlbrómíðs, en það efni er mjög skaðlegt ósonlaginu ásamt halónum og klórflúorkolefnum. Metýlbrómíð er notað í þúsundum tonna á hverju ári til sótthreinsunar á jarðvegi í landbúnaði, við eftirmeðhöndlun ýmissa landbúnaðarafurða, meðhöndlun á grænmeti og ávöxtum fyrir flutninga og til að vernda matvæli í geymslu fyrir meindýrum. Einnig má nefna að metylbrómíð er notað til að eyða skordýrum og öðrum meindýrum af golfvöllum á vinsælum ferðamannastöðum í Bandaríkjunum. Verið er að reyna að takmarka notkun efnisins í þróunarlöndunum, en þar eru áhrif ósoneyðingarinnar mikil og náttúruleg há útfjólublá geislun.

Ekki náðist samkomulag við Bandaríkjamenn um takmörkun á framleiðslu efnisins. Samþykkt var að halda aukafund næsta sumar um bráðanotkun metýlbrómíðs í tengslum við 25. vinnufund aðildarríkja Montreal bókunarinnar. Fjöldi annarra tillaga var samþykktur á fundinum, m.a. um að koma á betra eftirliti til að koma í veg fyrir ólöglega verslun með ósoneyðandi efni, um notkun ósoneyðandi efna á rannsóknastofum og um endurfjármögnun Marghliðasjóðsins. Marghliðasjóðurinn var stofnaður 1990 til að auðvelda þróunarríkjunum að mæta kostnaði sem fylgir því að draga úr og hætta framleiðslu og notkun ósoneyðandi efna. Marghliðasjóðurinn hefur á undanförnum árum haft yfir 150 milljónir dollara til ráðstöfunar á ári til þróunarverkefna í þriðja heiminum.