Stök frétt

Hafrannsóknarstofnun hefur í samvinnu við Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Umhverfisstofnun vaktað magn svifþörunga á nokkrum stöðum við landið síðan í fyrra en þeir eru: Breiðafjörður, Eyjafjörður, Mjóifjörður eystri og Hvalfjörður. Umhverfisstofnun hefur staðið að sýnatöku í Hvalfirði sem er vinsæll kræklingatínslustaður meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu.

Á undanförnum árum hefur komið fram í rannsóknum Hafrannsóknastofnunar að magn eitraðra svifþörunga getur verið yfir hættumörkum frá maí og fram í októbermánuð. Ef magn eitraðra svifþörunga er yfir viðmiðunarmökum er veruleg hætta á að kræklingur og annar skelfiskur sé óhæfur til neyslu. Heppilegasti tíminn til skelfisktínslu er því á veturna og vorin.

Undanfarnar vikur hefur magn eiturþörunga verið yfir viðmiðunarmörkum en síðastliðna viku var mjög lítið af svifþörungum í sýninu sem tekið var og engar eitraðar tegundir.

Stofnunin beinir því til fólks sem hyggur að kræklingatínslu að fylgjast með heimasíðu Umhverfisstofnunar www.ust.is en á henni eru nýjustu upplýsingar um niðurstöður talninga á eiturþörungum í Hvalfirði og heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar http://www.hafro.is.