Stök frétt

Í sumar hefur Umhverfisstofnun staðið fyrir framkvæmdum á Lakasvæðinu og hafa þar verið reistir trépallar og stígar. Með framkvæmdunum er verið að vernda viðkvæmt gróðurlendi og gjallgígana en hvorutveggja er afar viðkvæmt fyrir hverskonar umferð.

Við Tjarnargíg hefur verið reistur útsýnispallur sem auðveldar ferðamönnum að njóta útsýnis yfir gíginn og nánasta umhverfi. Til stendur að leggja plankastíg frá pallinum að bílastæðinu. Vegna mikillar umferðar gangandi manna við Tjarnargíg hafa orðið miklar skemmdir á gróðurþekjunni sem fyrst og fremst er mosaþekja sem þolir afar illa umferð.

Til þæginda fyrir ferðamenn hafa verið sett upp áningarborð á flötinn rétt neðan við bílastæðið hjá móbergsfjallinu Laka og við bílastæðið hjá Tjarnargíg.

Umhverfisráðuneytið styrkti Umhverfisstofnun sérstaklega um 10 milljónir kr. til framkvæmda á svæðinu.

Í tilefni framkvæmdanna bauð Umhverfisstofnun til formlegrar opnunar á útsýnispallinum við Tjarnargíg og öðrum framkvæmdum á svæðinu. Boðið þáðu um 30 manns en farið var frá Kirkjubæjarklaustri. Á leiðinni inn í Laka fræddi Ólafía Jakobsdóttir, verkefnsstjóri Kirkjubæjarstofu, gesti um náttúrufar, örnefni og nýtingu á svæðinu. Við Galta tók Kári Kristjánsson landvörður á móti hópnum og upplýsti gesti um eldgosasögu svæðisins og áhrif á nærliggjandi landsvæði, landið allt og önnur lönd jarðarkringlunnar. Ásamt því að lýsa sérstöðu svæðisins á heimsmælikvarða sagði hann frá hugmyndum um uppbyggingu á svæðinu sem í senn á að vernda víðkvæma náttúru svæðisins sem og að þjóna gestum sem þangað koma.

Áð var á bílastæðinu við Tjarnargíg og gestir nutu veitinga í boði Umhverfisstofnunar. Þar flutti umhverfisráðherra, Jónina Bjartmarz ræðu og fjallaði m.a. um nauðsyn þess að vernda sérstakar náttúruminjar eins og Lakasvæðið og að tryggja aðgang almennings að svæðinu. Einnig upplýsti hún um áform um stækkun þjóðgarðsins. Jóna Sigurbjartsdóttir, oddviti Skaftárhrepps og Davíð Egilson, forstjóri Umhverfisstofnunar buðu gesti velkomna á svæðið og fjölluðu um mikilvægi þess að tryggja fjármagn til reksturs verndarsvæða, bæði hvað varðar uppbyggingu og fræðslu.

Lakasvæðið var friðlýst árið 1975 sem náttúruvætti vegna sérstöðu gígaraðarinnar.

Svæðið varð hluti af Skaftafellsþjóðgarði í október 2004 þegar þjóðgarðurinn var stækkaður.