Stök frétt

Vegna umfjöllunar í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins 8. desember þar sem vitnað var í skýrslu Sigurðar Helgasonar stjórnsýslufræðings, Stefna, stjórnun og skipulag Umhverfisstofnunar, vill Davíð Egilson forstjóri Umhverfisstofnunar koma eftirfarandi á framfæri:

Umhverfisstofnun var mynduð með lögum 90/2002 og hóf starfsemi sína hinn 1. janúar 2003. Þar undir voru sameinaðar þrjár stofnanir: Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins og embætti Veiðistjóra auk Hreindýraráðs og verkefna á sviði dýraverndar.

Sameiningin var engan veginn óumdeild en gekk einstaklega snurðulaust fyrir sig, einkanlega vegna vilja starfsmanna til að byggja nýja stofnun upp.

Síðla á árinu 2004 kom í ljós að í rekstraráætlunum stofnunarinnar fyrir árin 2003 og 2004 hafði verið gert ráð fyrir 36 m.kr. hærri tekjum á ári en fjárlög gerðu ráð fyrir. Stafaði þessi misskilningur af flókinni framsetningu fjárlaga í kjölfar þess að ein stofnun hafði tekið við hlutverki þriggja. Þrátt fyrir að telja mætti slíkan rekstrarhalla skiljanlegan í ljósi þess að lítil reynsla væri komin á rekstur hinnar nýju stofnunar taldi ég hann ekki ásættanlegan og það væri skylda mín sem stjórnanda að ná honum niður með sértækum aðgerðum.

Ákveðið var að halda starfsemi fagsviða óbreyttri en draga tímabundið úr sameiginlegum rekstri. Þetta var gert með það í huga að stofnunin yrði að anna þeim verkefnum sem á hana lögðust og fara stöðugt vaxandi, einkanlega vegna skuldbindinga Íslands um samning um Evrópska efnahagssvæðið en talið er að Umhverfisstofnun sinni um 40% þeirra gerða sem hafa verið innleiddar í íslenskan rétt.

Meðal aðgerða sem gripið var til má nefna að dregið var úr allri aðkeyptri þjónustu, dregið úr fræðsluvinnu og starfsmönnum sjálfum falið að byggja upp innri ferla og sinna þverfaglegu starfi svo sem áframhaldandi stefnumótun, upplýsinga og gæðamálum. Var talið að með slíku aðhaldi yrði unnt að ná hallanum niður í viðunandi horf á þremur árum og hefur sú áætlun staðist.

Eins og kemur fram í skýrslu Sigurðar Helgasonar var Umhverfisstofnun á réttri leið í upphafi en með þessum nauðsynlegu aðgerðum var fyrirséð að hægjast myndi á öllum sameiningarferlum. Ekki fer hjá því að slíkur niðurskurður hafi haft áhrif á starfsanda og möguleika til þróunar innra starfs stofnunarinnar og sú gagnrýni sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og skýrslu Sigurðar Helgasonar er lýsing á óhjákvæmilegum afleiðingum þessara aðgerða. Með sem næst hallalausum rekstri á yfirstandandi ári hefur nú loks skapast langþráð tækifæri til aukinnar áherslu á vinnu við innra skipulag og þróun stofnunarinnar sem lítið svigrúm hefur verið til að sinna af ofangreindum orsökum.

Í tillögum skýrslu Sigurðar Helgasonar kemur m.a. fram hversu nauðsynlegt er í ljósi sívaxandi mikilvægis umhverfismála að auka þurfi fjárframlög til Umhverfisstofnunar á næstu árum. Ennfremur er ljóst að samhliða því þarf að gera verulegar breytingar á skipulagi og rekstri stofnunarinnar.

Það er reynsla mín af stjórnun breytinga á Hollustuvernd ríkisins á sínum tíma og við myndun Umhverfisstofnunar fyrir tæpum fjórum árum að ef slíkar umbreytingar eiga að ná fram að ganga þarf að ríkja einhugur og fullur trúnaður milli aðila. Hef ég þess vegna fullan skilning á því að nýr aðili, óbundinn af forsögunni, leiði það starf enda tel ég almennt heppilegra að persónulegir hagsmunir víki fyrir þeim almennu.

Það er því sameiginleg niðurstaða umhverfisráðuneytisins og forstjóra Umhverfisstofnunar að þær breytingar sem framundan eru til að ná markmiðum sameiningarinnar, séu það viðamiklar að heppilegra sé að nýr forstjóri stýri þeim. Er samkomulag um að staðan verði auglýst á næstunni og hef ég fallist á að gegna starfinu þar til nýr aðili hefur verið ráðinn.

Davíð Egilson