Stök frétt

Eins og skýrt hefur verið frá í fréttum er flutningaskipið Wilson Muuga strandað skammt fyrir sunnan Sandgerði.

Um borð í skipinu eru 120 tonn af svartolíu og 17 tonn af dísilolíu.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar eru á svæðinu og fylgjast með aðgerðum.

Í morgun hefur verið unnið við að safna saman tækjum og tólum og verður reynt að dæla olíu úr skipinu um leið og aðstæður bjóða.

Enn hefur ekki orðið vart olíuleka frá skipinu. Veður er vont á strandstað og því miður er lítið hægt að gera varðandi olíuleka fyrr en veður lægir.

Fyrstu aðgerðir munu því miðast við að minnka eins og hægt er magn olíu um borð.