Stök frétt

Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú að hefja flutning manna út í skipið til að halda áfram vinnu við undirbúning á dælingu kl. 11. Veðurspá fyrir næsta sólarhring er mjög slæm og spáin fyrir næstu daga er heldur ekki góð, hvassviðri seinni part föstudags, á laugardag, sunnudag og mánudag (jóladag). Stífar sunnan- og suðvestanáttir þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag (Veðurstofa Íslands).

Skipið

Skipið virðist vera stöðugt og situr á klöppinni. Á fjöru sést til botns allan hringinn um skipið. Að mörgu leyti er ástand skipsins gott. Athugun í gær leiddi í ljós að það er þurrt í fremri lest skipsins, sjór er kominn í aftari lestina og þar er þunn olíubrák. Í aftasta hluta skipsins, í vélarrúmi, virðist hins vegar vera greiðari leið fyrir sjó inn.

Umhverfið

Eins og fyrr hefur verið greint frá er svæðið umhverfis strandstaðinn mikilvægt fyrir fuglalíf allt árið um kring og samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands er vitað um margar tegundir fugla sem dvelja þarna yfir vetrartímann, þ.á m. toppskarf sem hefur fækkað umtalsvert undanfarin ár og stendur stofninn því veikt ásamt því sem mikið er af æðarfugli, mávi o.fl tegundum.

Athugun á olíu í umhverfinu leiddi í ljós þunna slikju sem lá u.þ.b. í NA frá skipinu en virtist ekki ná landi. Einnig sást slikja í tveimur pollum í skerjagarðinum. Aðra olíu er ekki að sjá. Fylgst verður með ströndum og hafi í næsta nágrenni við skipið.

Sjólag og veður

Ásamt birtuskilyrðum hafa veður og sjólag gert alla vinnu um borð erfiða. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá hefur verið allhvass vindur stöðugt frá því að Wilson Muuga strandaði að morgni 19. desember.


Vindhraði og vindhviður við Garðskagavita sl. viku (Veðurstofa Íslands)

 

 

Veðurspá fyrir næstu daga er heldur ekki góð, hvassviðri seinni part föstudags, á laugardag, sunnudag og mánudag (jóladag). Stífar sunnan- og suðvestanáttir þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag (Veðurstofa Íslands).

Alda stendur núna nánast beint á skut skipsins og dregur það óneitanlega úr áhrifum hennar. Ölduspá gerir ekki ráð fyrir því að dragi umtalsvert úr ölduhæð næstu daga og fer það saman við mesta strórstreymi þessa lotuna föstudag og laugardag (Þorláksmessu).

Aðgerðir um borð 21.12

Vegna birtuskilyrða og veðurs var einungis hægt að vinna í skipinu í tæpa 3 tíma. Til að dæla olíunni í land þarf að flytja hana um 300 m langa slöngu. Slík aðgerð verður ekki framkvæmd nema í þegar vind og öldur hefur lægt.

Kannaðir voru olíugeymar skipsins eins og aðstæður buðu. Áfram var haldið með undirbúning fyrir dælingu olíu í land, m.a. opnað inn í aðgengilega geyma, hugað að leiðum inn í aðra geyma og  búið í haginn fyrir frekari aðgerðir.

 

Framhaldið

Ákvörðun um framhald verður tekin í lok dags. . Í dag, föstudag, verður áfram unnið þar sem frá var horfið í gærvið undirbúning og uppsetningu búnaðar.

Hafinn er nauðsynlegur undirbúningur fyrir hugsanlega strandhreinsun ef (þegar) olía berst í sjó og fjöru. Mengunarvarnabúnaður hefur verið fluttur á svæðið  en ef umtalsvert magn af olíu finnst á fjörum þarfnast hreinsun góðrar skipulagningar og umsjónar. Um hreinsun gildir hið sama og um dælingu, hún verður ekki framkvæmd nema eftir að veður hefur lægt.

Umhverfisstofnun mun áfram gefa upplýsingar um framgang verksins og aðstæður á strandstað eftir því sem verkinu miðar fram.