Stök frétt

Samantekt aðgerða dagana 26. og 27. desember

Aðgerðir þriðjudagsins hófust þegar í morgunsárið þegar starfsmenn Olíudreifingar og Framtaks drógu saman öll þau tæki og tól sem hugsanlegt væri að kæmi að notum við dælingu á olíu úr Wilson Muuga og fluttu á strandstað. Þegar til átti að taka kom reyndar upp smávægileg bilun í þyrlu Landhelgisgæslu Íslands en tafir urðu þó ekki miklar af þeim sökum. Þyrlan flutti síðan 9 manns og margvíslegan búnað um borð í skipið um hádegisbilið.

Dagurinn fór í undirbúning fyrir dælingu, uppsetningu tækja og lögð var leiðsla frá landi út í skip. Seinnipart dags var síðan allt klárt og leiðslan prófuð. Þá fannst galli í tengi og var því ekki um annað að ræða en að skipta þeim bút út. Þegar því svo var lokið um kl. 21 kom í ljós að það hafði snúist upp á leiðsluna og var þá ákveðið að bíða eftir næstu fjöru svo hægara væri um vik að lagfæra það.

Dæling úr skipinu hófst svo upp úr kl. 4 að morgni 27. desember og hefur verið dælt stöðugt síðan. Dælt er rólega til að tryggja öryggi leiðslunnar, nú er háflóð og þar sem slangan flýtur í sjónum er hún viðkvæmari fyrir hreyfingu en ella. Nú um hádegisbilið eru komnir um 30.000 lítrar af olíu í tankbíl.

Enn hafa engir olíublautir fuglar fundist í fjörum umhverfis strandstaðinn og ekkert ber á olíumengun frá skipinu. Það aukast því sífellt líkur á því að hægt verði að afstýra alvarlegu umhverfisslysi á þessu viðkvæma svæði.