Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Það eru til hörkutól víðar en á Íslandi.
Fyrir stuttu kom norskur ferðamaður í þjóðgarðinn og gisti í tjaldi í margar nætur. Hann gekk inn í Morsárdal og fór víðar um og var alsæll með veðrið og náttúruna. Þá komu hjón frá Þýskalandi og gistu tvær nætur í tjaldi á tjaldstæðinu. Fyrri nóttina var suðaustan rigning og rok og seinni nóttina snjóaði, en þau töluðu bara um hvað það væri fallegt í Skaftafelli, ekki orð um kulda eða vosbúð.
Svona fólk er aðdáunarvert.

Snemma í mars kom hópur háskólanema frá Pittsburg í Bandaríkjunum ásamt tveimur prófessorum í jöklafræðum í Skaftafell og dvaldi í viku við ýmis konar rannsóknavinnu. Þau skoðuðu gestastofuna og fengu fyrirlestur um þjóðgarðinn, horfðu á myndina Umbrotin í Vatnajökli, sem segir frá eldgosinu í Gjálp og Skeiðarárhlaupinu 1996 og fengu leiðsögn inn að Skaftafellsjökli.

Dagana 18.-25. mars munu 12 amerískir sjálfboðaliðar dvelja og vinna við ýmis störf í Skaftafelli. Þetta er ungt fólk á aldrinum 18-22 ára, sem stundar nám við Eckerd College, í St. Petersburg í Flórída. Það er nýjung að taka á móti sjálfboðaliðum að vetri til, en ýmis verkefni liggja fyrir svo sem að klippa limgerðin á tjaldstæðinu, endurnýja brú upp við Svartafoss, setja saman ný áningaborð og tiltekt í kringum Sandasel. Það eru viðbrigði fyrir þau að koma frá hinum sólríka stað Flórída til Íslands í kulda og snjó! Chas Goemans starfsmaður Umhverfisstofnunar skipuleggur sjálfboðaliðastarfið í samráði við starfsmenn Skaftafellsþjóðgarðs.

Skaftafellsþjóðgarður hefur fengið 50 milljónir til endurnýjunar og viðhalds á byggingum í Skaftafelli og til að bæta aðstöðu á tjaldstæðinu. Þar mun m.a. verða lagt rafmagn. Mörg verkefni eru framundan og munum við leitast við að fá heimamenn til starfa.

Nú stendur yfir endurnýjun á snyrtingu karla í snyrtihúsinu við Þjónustumiðstöðina í Skaftafelli. Búið er að hreinsa allt innan úr snyrtingunni og verður rýmið endurskipulagt, ný hreinlætistæki sett upp og nýtt vegg- og gólfefni lagt. Mikil þörf var á að endurnýja snyrtinguna, sem hefur þjónað ferðamönnum óbreytt í rúm 40 ár.
Til gamans má geta þess að 18 vaskar voru á karlasnyrtingunni og á kvennasnyrtingunni eru aðrir 18 vaskar. Það hefur greinilega verið talið mjög brýnt að láta þá ekki vanta! Þeim verður fækkað umtalsvert þegar ný hreinlætistæki verða sett upp.

Viðgerð á göngubrú yfir Morsá stendur yfir þessa dagana. Brúna tók af í miklum vatnavöxtum í desember 2006 og barst hún með straumnum nokkur hundruð metra niður ána. Benedikt Steinþórsson í Svínafelli hefur unnið undanfarið að því að treysta undirstöður brúarinnar svo hún geti þolað ána í misjöfnum ham. Þessi brú hefur stundum verið nefnd “rússneska rörið”, en hún heitir: Brúin við Hrafnagil.
Í vetur hefur mikið borist af möl með lækjunum úr giljunum í Skaftafellsheiðinni. Í mynni Eystra- og Vestragilsins var komin svo mikil möl að lækirnir runnu ekki lengur í gömlu farvegunum heldur leituð annarra leiða. Báðar göngubrýrnar þarna voru komnar á kaf í möl og lækirnir farnir að renna í gegnum skóglendi. Þorlákur Magnússon í Svínafelli hefur mokað með vélgröfu undan göngubrúnum og ræst fram farvegi fyrir lækina þannig að þeir valdi ekki gróðurskemmdum.

Laugardaginn 10. mars sl. boðaði ráðgjafanefnd um skipulag þjóðgarðsins við Lakagíga í Skaftárhreppi til ráðstefnu um skipulagsmál fyrir Lakasvæðið á Kirkjubæjarsklaustri. Ráðstefnan var haldin á Hótelinu á Klaustri og stóð frá 11-17.

Fyrirlesarar og erindi voru:

Jóna Sigurbjartsdóttir oddviti Skaftárhrepps ávarpaði ráðstefnuna. Ragnar Frank og Jóna voru fundarstjórar.

Á ráðstefnuna komu um 50 manns og lýstu menn yfir ánægju sinni með að hún skyldi haldin.

Vinnu við skólastofu Náttúruskólans í Sandaseli miðar vel. Eftir er að mála veggi og setja eitthvert heppilegt efni á gólfið. Einnig vantar útidyrahurð.

Nýtt frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð var samþykkt áður en Alþingi lauk störfum 17. mars sl. Það mun hafa ýmsar breytingar í för með sér, m.a. þær að Skaftafellsþjóðgarður sem slíkur verður ekki til, heldur verður hann hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, sem verður jafnframt stærsti þjóðgarður Evrópu. Þessi lög marka ákveðin tímamót, og eru stórt skref í stuttri sögu náttúruverndar á Íslandi.

21. mars er vorjafndægur, þegar dagurinn er jafnlangur nóttunni. Þá er bjart jafn lengi og það er dimmt. Síðan tekur birtan jafnt og þétt að vinna á uns lengsta sólargangi er náð um Jónsmessuleytið. Það er yndislegur tími framundan með nývaknandi lífi í allri náttúrunni eftir vetrardvala, farfuglarnir koma til landsins og blessuð sólin sem elskar allt, vermir og vekur með kossum sínum.

Með kveðju úr Skaftafellsþjóðgarði
Hafdís Roysdóttir