Stök frétt

Fimm nemar í umhverfisfræðum við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna eru á námskeiði í Umhverfisstofnun í dag og á morgun.

Nemarnir koma langt að en tvö eru frá Nicuaragua, ein frá Íran, einn frá El Salvador og einn frá Kína. Öll hafa þau lokið háskólanámi í verkfræði eða raunvísindum. Veðrið hefur sannarlega leikið við þau og í stuttu spjalli þótti þeim mikið til Íslands koma fyrir gæði á sviði vatns, óspilltrar náttúru, heita vatnsins og vistvænnar orku.

Meðal þess sem þau eru frædd um af sérfræðingum Umhverfisstofnunar eru skipulag þjóðgarða og náttúruvernd, varnir gegn loft- og hávaðamengun, meðferð eiturefna, ráðstöfun sorps og úrgangs, en heimsókninni lýkur með vettvangsferð í Sorpu í Álfsnesi þar sem m.a. verða kynntar aðferðir við móttöku og meðferð úrgangs af höfuðborgarsvæðinu.

Heimsóknin er hluti af árlegri þátttöku Umhverfisstofnunar í kennslu við Jarðhitaskóla SÞ.