Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Mynd: Vincent Keiman á Unsplash

Í góðviðri eins og hefur verið í sumar er fólk meira útivið í garðinum. Ýmislegt sem við gerum heimavið getur skapað mikla loftmengun í garðinum eða næsta nágrenni hans. Fyrst er að nefna grillið. Kolagrill valda margfalt meiri mengun heldur en gasgrill. Bruni í gasgrillum er mjög hreinn og frá þeim kemur nær eingöngu koldíoxíð (CO2) sem er gróðurhúsalofttegund en skaðlaus fólki en frá kolagrillum kemur mikið sót. Frá kolagrillum kemur að auki kolmónoxíð (CO) sem er eitruð lofttegund, mikið sót sem er í raun fíngert og skaðlegt svifryk og einnig brennisteinssambönd sem erta lungu og jafnvel ýmis krabbameinsvaldandi efnasambönd. Gasgrill eru því mun umhverfisvænni kostur. Þótt þau séu dýrari í innkaupum þá eru þau mun ódýrari í rekstri ef mikið er grillað.

Útiofnar hafa verið vinsælir undanfarin ár. Notkun þeirra getur skapað talsverða loftmengun í nágrenninu. Eingöngu skal brenna í þessum ofnum þurran við. Viður sem ekki er vel þurrkaður veldur ófullkomnum bruna, meiri sótmyndun og myndun skaðlegra efnasambanda. Ekki skal brenna máluðu eða fúavörði timbri því í hvoru tveggja eru rotvarnarefni og klór sem auðveldlega geta myndað díoxín við bruna. Allt sorp og plastefni valda einnig mikilli mengun þegar þau brenna. Við bruna pappírs myndast mikil aska og því skyldi eingöngu nota hann við að koma eldinum af stað. En jafnvel þótt öllum reglum sé fylgt og aðeins notaður þurr viður þá fylgir þessum ofnum mikil sótmengun. Ef menn vilja fá varma á pallinn á síðkvöldum þá skapa gashitarar mun minni mengun en sú aðferð sem skapar minnstu loftmengun er geislahitun með rafmagni.

Svo er það loks garðslátturinn. Bensínknúin slátturvél veldur mikilli loftmengun og ein slík getur mengað á við 40 bíla. Helsta mengunarefnið er kolmónoxíð (CO) og óbrunnar bensíngufur en sumar gerðir, sérstaklega eldri tvígengisvélar sem brenna smurolíunni geta einnig skapað mikla sótmengun. Í minni görðum þar sem því er viðkomið eru rafmagnsslátturvélar mun umhverfisvænni kostur. Loks má nefna umhverfisvænustu slátuvélarnar en það eru handsláttuvélar. Þær brenna mjög umhverfisvænum orkugjafa sem mikið offramboð er af um þessar mundir en það er líkamsfita. Þær henta ágætlega í minnstu garðana.