Stök frétt

Mynd: Alice Donovan Rouse á Unsplash
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur nú um árabil unnið að aukinni fræðslu um neikvæð áhrif útfjólublárrar geislunar og hvernig helst megi verjast henni. Síðastliðið haust sendi framkvæmdastjórnin frá sér svonefnd tilmæli þar sem staða þekkingar á málefninu er rakin, hvatt til samhæfðrar,vandaðrar fræðslu og línur lagðar fyrir framleiðendur sólvarnarvara um prófanir o.fl.

Útfjólublá geislun sólar
Útfjólubláir geislar sólar eru ósýnilegir mönnum. Ósonlagið í lofthjúp jarðar gleypir stóran hluta þessara geisla og veitir því mikilvæga vörn, en lítill hluti útfjólublárrar geislunar nær þó til jarðar. Útfjólubláum geislum er gjarnan skipt niður í A og B geisla eftir bylgjulengd þeirra (hér eftir kallað UVA og UVB, þ.e. Ultraviolet A og B). Í litlum mæli hafa útfjólubláir geislar ákveðin jákvæð áhrif. T.d. ýta þeir undir myndun D-vítamíns í líkamanum. Hætt er þó við að neikvæð áhrif þeirra séu öllu meiri en þau jákvæðu. Nokkuð langt er síðan menn áttuðu sig á samspili UVB geisla og sólbruna, aukinnar hrukkumyndunar semog illkynja húðkrabbameins. Á síðari árum hafa rannsóknir í auknum mæli beinst að áhrifum UVA geisla. Þó að UVB-geislar teljist aðalorsakavaldur illkynja húðkrabbameins er ekki loku fyrir það skotið að UVA geislar eigi þátt í myndun þess. Sannað þykir að UVA-geislar flýti öldrun húðarinnar en rannsóknir benda einnig til þess að bæði UVB og UVA geislar í óhóflegu magni veiki ónæmiskerfi líkamans.

Hvernig má varast neikvæð áhrif sólar
Heilsufarsleg áhrif útfjólublárrar geislunar ráðast að mestu leyti af viðbrögðum okkar og hegðun. Við getum “klætt af okkur” sólina, notað sólgleraugu, haldið okkur í skugga og svo framvegis. Einnig ber að hafa í huga að áhrif sólar magnast við endurkast geislanna frá snjó, sjó og vötnum. Við sólböð eða aðra útiveru þar sem sólar nýtur við er nauðsynlegt að nota sólvarnarvörur á bera húð. Mikilvægt er að velja vörn með háum SPF stuðli (Sun Protection Factor) sem ver húðina gegn bæði UVB og UVA geislum. Eitthvað er um villandi eða jafnvel rangar staðhæfingar um gagnsemi sólvarnarvara. Þær hafa til dæmis verið markaðssettar sem “sólblokkarar”, sem sagðir eru fullkomin vörn gegn útfjólublárri geislun. Slík vörn er ekki til og því ekkert mark takandi á slíkum staðhæfingum. Þá hafa merkingar sem vísa til varnarmáttar sólvarnarvara gegn UVA geislum verið afar mismunandi og jafnvel misvísandi. Þetta mun þó vonandi brátt heyra sögunni til, því verið er að vinna að endurbótum, einföldun og samræmingu á merkingum sólvarnarvara.

Mikilvægt er að bera nægilega mikið af sólvörn á líkamann eins og lýst er í sólarráðunum hér að neðan og endurtaka áburðinn að ákveðnum tíma liðnum, sem og eftir sundsprett eða önnur böð.

Sólbruni í bernsku er stór áhrifaþáttur í þróun húðkrabbameins seinna á ævinni. Smábörn eru sérlega viðkvæm fyrir geislum sólar og heppilegast að hafa kornabörn ekki í beinu sólskini. Fleiri góð ráð má finna hér

Tilmæli Evrópubandalagsins (EB) til framleiðenda og seljenda sólvarnarvara
Sólvarnarvörur eru flokkaðar sem snyrtivörur og falla því undir snyrtivörutilskipun Evrópubandalagsins (76/768/EBE) Í tilmælum EB (2006/647/EB) er vitnað í nokkrar greinar snyrtivörutilskipunarinnar þar sem fram kemur m.a. að snyrtivörur eiga að stuðla að vellíðan, þær skulu ekki skaða heilsu manna við eðlilegar og venjulegar aðstæður og upplýsingar um verkan þeirra og annmarka skulu vera réttar, auðfengnar og auðskiljanlegar. Í tilmælunum er minnt á að þetta gildi um sólvarnarvörur jafnt sem aðrar snyrtivörur. Tilgangur tilmælanna er að stuðla að öflugri heilsuvernd almennings. Hvatt er til fræðslu um áhrif UV-geislunar og hvernig best megi varast neikvæð áhrif hennar.Rétt notkun sólvarnarvara er afar mikilvæg ef tryggja á varnarmátt þeirra og því áhersla lögð á réttar upplýsingar, s.s. um skammtastærðir og tíðni áburðar. Jafnframt er lögð áhersla á að sólvarnarvörur veita ekki fullkomna vörn gegn geislum sólar og mikilvægi þess að koma þem skilaboðum til notenda sólvarnarvara. Samfara aukinni þekkingu á áhrifum UV-geisla er nú lögð áhersla á að sólvarnarvörur innihaldi bæði vörn gegn UVB- og UVA-geislum (SPF stuðull UVA skal vera a.m.k. 1/3 af SPF-stuðli UVB). Mælt er með ákveðnum stöðluðum prófum á UVA varnarmætti efna og hvatt til samræmingar og einföldunar neytendaupplýsinga. Að síðustu er vakin sérstök athygli á öflugum forvörnum til handa viðkvæmasta neytendahópnum, þ.e. ungum börnum.

Í hnotskurn:
Áhersla er lögð á að hafa upplýsingar um sólvarnir auðskiljanlegar, samræmdar og eins einfaldar og unnt er. Sólarvarnarvörur þurfa að innihalda bæði UVA- og UVB-vörn í nægjanlegu magni og mælt með stöðluðum prófunum og merkingum hvað varðar varnargildi þeirra. Sérstök áhersla er lögð á sólvarnir viðkvæmasta aldurshópsins, þ.e. ungbörn.