Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Nýtt skipurit Umhverfisstofnunar var kynnt starfsmönnum í gær og sagði Ellý Katrín Guðmundsdóttir forstjóri að það væri afraksturinn af yfirgripsmikilli stefnumótunarvinnu sem staðið hefði frá því í vor. Samstarfsaðili stofnunarinnar við þessa vinnu hefur verið ráðgjafafyrirtækið Netspor ehf.

Ellý sagði að í stefnumótunarvinnunni hefði fyrst og fremst verið leitast við að hlusta á skoðanir starfsmanna með því standa fyrir skoðanakönnun og vinnufundum og tengja alla helstu samstarfsaðila við stefnumótunina. Settur var á fót sérstakur breytingahópur og unnin voru viðamikil sviðsmyndaverkefni þar sem leitast var við að sjá fyrir þróun næstu ára og hvert yrði hlutverk Umhverfisstofnunar í samfélagi sem yrði sífellt meðvitaðra um umhverfismál.

”Með þessu er verið að skapa nýjan grundvöll fyrir umræðu um framtíð stofnunarinnar og horfa fram á veginn með opnum huga og jafnframt að svara kröfum stjórnsýsluúttektar sem gerð var á stofnuninni á síðasta ári,” sagði Ellý.

Hún lagði áherslu á að hlutverk Umhverfisstofnunar væri að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. “Stofnunin sinnir verkefnum sínum með söfnun og miðlun upplýsinga um umhverfismál, ráðgjöf til stjórnvalda um lagasetningu og reglugerðir, ráðgjöf til annarra opinberra aðila, sveitarfélaga og fyrirtækja, með eftirliti og leyfisveitingum og með því að vinna mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun hefur það að leiðarljósi að innleiða sjálfbæra þróun á landsvísu í samræmi við stefnu stjórnvalda, tryggja framkvæmd laga og reglna á sviði umhverfismála, fræða og upplýsa með það að markmiði að fá sem flesta til að standa vörð um umhverfið með okkur og vera til fyrirmyndar í vistvænum rekstri. Þessum markmiðum verður fyrst og fremst náð með sterkri liðsheild, metnaði og fagmennsku ásamt framsýni, áreiðanleika og nútímalegum vinnubrögðum.”

Samkvæmt nýja skipuritinu mun Umhverfisstofnun skiptast í tvö fagsvið og þrjú stoðsvið. Fagsviðin verða Svið náttúru- og dýraverndar og Svið hollustuverndar og mengunarvarna. Stoðsviðin þrjú verða Svið lögfræði- og stjórnsýslu, Svið fjármála- og reksturs og Svið fræðslu- og upplýsingamála,

Nýja skipuritið tekur gildi 1. janúar 2008 og en þá verða jafnframt fleiri breytingar á umfangi stofnunarinnar þar sem matvælaeftirlit flyst yfir til ráðuneytis sjávarútvegs- og landbúnaðar og þjóðgarðarnir í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum verða hluti af nýrri stofnun, hinum nýja Vatnajökulsþjóðgarði.