Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Vaskar konur frá handverkshúsinu Dyngjunni kynntu gestum og gangandi laufabrauðsgerð í Mývatnsstofu, gestastofu Umhverfsstofnunar í Mývatnssveit, sl. laugardag.

Hægt var að fylgjast með laufabrauðsútskurði með hefðbundinni aðferð og gat fólk fengið að spreyta sig á útskurðinum undir styrkri leiðsögn Dyngjukvenna. Einnig komu jólasveinarnir úr Dimmuborgum við og ræddu við börnin og sníktu kakó og laufabrauð.

Sterk hefð er fyrir laufabrauðsgerð í Mývatnssveit en talið er að siðurinn að skera út í og steikja laufabrauð sé upprunninn í Þingeyjarsýslum. Enn þann dag í dag hópast fjölskyldur saman í sveitinni og skera út í laufabrauð á gamla mátann. Þó að flestir taki þátt eru færustu útskurðarmeistararnir oftast konur. Á laugardaginn mátti sjá hvernig þær töfruðu fram ótrúleg listaverk sem munu svo sannarlega gleðja bæði augu og maga á jólunum.

Laufabrauðsbakstur Dyngjunnar er árlegur viðburður og er hluti af jóladagskrá í Mývatnssveit. Til að kynna sér jóladagskrána nánar er hægt að fara á snowmagic.is