Stök frétt

Í Náttúruverndaráætlun 2004-2008 er m.a. lagt til að vernda þrjú gróðursvæði og er eitt þeirra Vatnshornsskógur í Skorradal, sem er gamall og lítt snortinn birkiskógur. Verndargildi skógarins byggir fyrst og fremst á grósku hans og lítillar röskunar. Með friðlýsingunni er stefnt að því að vernda náttúrulegt gróðurfar og skapa skilyrði til náttúrulegrar endurnýjunar birkis á svæðinu. Friðlýsing Vatnshornsskógar var staðfest í þann 29. janúar s.l. með undirritun auglýsingar um friðland í Vatnshornsskógi og er heildarflatarmálið 247 ha.

Skógurinn tilheyrir jörðinni Vatnshorni sem er fyrir botni Skorradalsvatns, en jörðin er í eigu ríkisins og Skorradalshrepps. Aðkoma að Vatnshornsskógi er sunnan Skorradalsvatns um jarðirnar Stóru-Drageyri og Haga, en vegurinn er illfær bifreiðum. Innan marka Vatnshornsskógar er svæði er nefnist Klausturskógur en það nafn á rætur að rekja til þess tíma er Viðeyjarklaustur átti þar ítök.

Vatnshornsskógur er talinn einn elsti birkiskógur á Vesturlandi, er afar þéttur og þar er birkið óvenju hávaxið sé það borið saman við annað birki á Vesturlandi. Í skóginum er gróskumikill og fjölbreyttur botngróður og á svæðinu hefur fundist eini vaxtarstaður fléttunnar flókarkræðu hér á landi. Þegar fram komu hugmyndir um að selja skóginn undir frístundabyggð beittu þeir Ágúst Árnason, skógarvörður og Davíð Pétursson oddviti á Grund í Skorradal sér fyrir því að skógurinn skyldi verndaður. Markmiðið þá, eins og nú er að varðveita náttúrulegan fornan birkiskóg og að skógurinn fengi að þróast án þess að gripið yrði inn í náttúrulega framvindu.

Vatnshornsskógur er jafnframt einn 53 þjóðskóga landsins, þ.e. skóga í umsjón Skógræktar ríkisins og eru þeir opnir öllum. Skógrækt ríkisins hvetur fólk til nýta sér þjóðskógana til útiveru og upplifunar enda óteljandi ævintýri til upplifunar.

Friðlýsingarskilmálar voru unnir í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Skorradalshrepp, en álit Náttúrufræðistofnunar Íslands um sérstöðu og verndargildi lá fyrir. Þess ber að geta að Skógrækt ríkisins lagði til að svæðið Vatnshornsskógur færi á Náttúruverndaráætlun 2004-2008. Í Skógræktarritinu 2004 er að finna gein sem fjallar um flókakræðu og Vatnshornsskóg: Flókakræða fundin í Vatnshornsskógi í Skorradal.

Frétt á vef umhverfisráðuneytisins vegna undirritunar fríðlýsingarinnar.