Stök frétt

Vatnshlot er afmörkuð heild vatns af umtalsverðri stærð. Vatnið í Mývatni er til dæmis eitt vatnshlot.

Umhverfisstofnun heldur málstofu um álag á vatnshlot 6. mars næstkomandi á Grand Hótel, kl. 9:00 til 15:00.

Dagskrá málstofunnar

Tekið er við skráningum á málstofuna á netfangið ust@ust.is til 5. mars n.k.

Málstofan er liður í undirbúningi á vinnu við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að setja ramma um vernd yfirborðsvatns, grunnvatns, árósavatns og strandsjávar, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vistkerfa. Vatnatilskipunin á að tryggja sjálfbæra vatnsnotkun með verndun nytjavatns, bæta gæði vatna og koma í veg fyrir hnignun vatns, t.d. með því að dregið verði úr losun hættulegra efna í vatn. Tilskipunin á einnig að stuðla að aðgerðum gegn flóðum til þess að bæta ástand vatns og sjávar.

Tilgangur málstofunnar er að stefna saman þeim aðilum sem eiga gögn um álag á vatn og hafa rannsakað vatnshlot, sérstaklega með tilliti til álags vegna losunar frá mengandi starfsemi. Jafnframt á að fara yfir stöðu þekkingar og draga fram áherslumál og eyður í þekkingu á álagi á landsvísu. Miklar upplýsingar liggja um álag á vatnshlot hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, skipulagsnefndum sveitarfélaga og ýmsum rannsóknastofnunum um ástand íslenskra vatna. Þess er vænst að niðurstöður málstofunnar falli vel að vinnunni við skilgreiningu álags á vatnshlot og munu nýtast Umhverfisstofnun og vinnuhópi um álag á vatnshlot til frekari vinnslu.

Erindi á málstofunni flytja fulltrúar frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Náttúrustofu Vestfjarða, Matvælastofnun og Íslenskum orkurannsóknum.

Umhverfisstofnun hóf undirbúning innleiðingarinnar á síðasta ári og hélt ráðstefnu um vatnatilskipunina 31. október s.l. Ráðstefnan var tvískipt og fjallaði fyrri hluti hennar um stjórnsýslu og lífríki en í seinni hluta var fjallað um aðkomu almennings og annarra stofnana að innleiðingu vatnatilskipunarinnar. Ekki var fjallað um álag á vötn á ráðstefnunni en ákveðið að halda málstofu síðar sem eingöngu fjallaði um álag á vatnshlot. Nokkur verkefni voru skilgreind í kjölfar ráðstefnunnar. og Stofnaður var stýrihópur,sem í eiga sæti forstjórar fimm ríkisstofnana – Umhverfisstofnun, Veiðimálastofnun, Orkustofnun, Veðurstofa Íslands og Hafrannsóknarstofnunin. Jafnframt voru skilgreindir fimm vinnuhópar með afmarkað hlutverk vegna ákveðinna verkefna:

  • um gagnaskil í sameiginlegan gagnagrunn ESB (WISE)
  • um skilgreiningu vatnshlota
  • um vistkerfisflokkun
  • um manngerð og mikið breytt vatnshlot
  • um álag á vatnshlot

Hóparnir hafa þegar hafið störf. Nánari upplýsingar um vinnuhópana og hlutverk þeirra verða sett á heimasíðu Umhverfisstofnunar.