Stök frétt

Umhverfisstofnun tók þátt í Grænum dögum Háskólans sem haldnir voru nú á dögunum og kynnti Norræna Umhverfismerkið Svaninn. Svansmerktar vörur og merkið sjálft var kynnt fyrir nemendum á Háskólatorgi þann 3 .mars. Seinna sama dag kynnti Anne Maria Sparf, starfsmaður Svansins, merkið á málstofu um græna neyslu.

Svanurinn hlaut góðar móttökur meðal nemenda og starfsfólks Háskólans en auk þeirra tók fjöldi gesta þátt í málstofunni sem haldin var í Norræna Húsinu. Fram kom í kynningunni að í dag er hægt að Svansvotta 67 vöru- og þjónustuflokka. Fjögur fyrirtæki á íslandi eru með Svansvottun auk yfir 150 innfluttra Svansvottaðra vörutegunda. Vöruúrvalið er enn minna hér á landi en á hinum Norðurlöndunum þar sem alls yfir 1000 vörutegundir og þjónustufyrirtæki hafa hlotið Svansvottun. Spurt var hví ekki séu til m.a. Svansmerktir veitingastaðir, verslanir eða Svansmerkt eldsneyti á Íslandi? Nauðsynlegt er að kynna merkið betur svo að neytendur geti krafist Svansmerktrar vöru á markaðnum. Auk þess var rætt um möguleikana á að Svansvotta matvæli en slíkar hugmyndir eru nú í athugun hjá Norræna umhverfismerkisráðinu.

Svanurinn veitir fyrirtækjum forskot í samkeppina m.a. vegna bættrar ímyndar, sparnaðar í rekstri og aukinnna gæða. Fyrir neytendum er Svansmerkið einföld og örugg skilaboð um vörur og þjónustu en Svanurinn stendur fyrir gæðavörur með minni skaðleg umhverfis- og heilsuáhrif – betra fyrir þig og umhverfið!

Grænir dagar voru haldnir 2.-6. mars á vegum Háskóla Íslands. Nemendafélag umhverfisfræðinema, Gaia, hefur umsjón með dögunum. Margskonar viðburðir eru á boðstólum, svo sem fyrirtækjakynningar, málstofur, kvikmyndasýningar og jafnvel fataskiptimarkaður. Dagarnir enda með lokahátíð í Norræna húsinu þar sem grænir drykkir og tónlist verða í boði til miðnættis.


Svanhvít Bragadóttir og Anne Maria Sparf