Stök frétt

Verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur opnað heimasíðuna http://www.rammaaaetlun.is/. Vefsíðan er sniðin að þeim sem vilja kynna sér rammaáætlun, tilurð hennar, markmið, verklag og framgang.

Rammaáætun var ýtt úr vör vorið 1999 í samstarfi iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis en til vinnunnar hafa verið kallaðir fulltrúar fjölmargra stofnana og hagsmunaaðila. Fyrsta áfanga rammaáætlunar lauk í árslok 2003 en stefnt er lokum 2. áfanga í lok yfirstandandi árs..

Markmið rammaáætlunar er að meta og forgangsraða á faglegan og hlutlægan hátt vernd og nýtingu íslenskra náttúrusvæða gagnvart virkjunarkostum fallvatna og háhitasvæða. Leggja skal mat á og flokka virkjunarkosti eftir orkugetu, hagkvæmni, þjóðhagslegu gildi og áhrifum á náttúrufar og minjar, og einnig að skilgreina og meta hagsmuni þeirra sem nýtt geta þessi sömu gæði með öðrum hætti. Þessi faglega úttekt verður grundvöllur stjórnvalda til að stuðla að sátt andstæðra sjónarmiða verndunar náttúrunnar og nýtingar íslenskra orkulinda.

Framsetning efnis vefsíðunnar er ekki miðað við sérfræðinga heldur almenning, hagsmunaaðila og áhugafólk sem öll hafa sannarlega hagsmuna að gæta. Meðal annars eru gestir hvattir til að senda verkefnisstjórn skilaboð, skoðanir, fyrirspurnir og/eða athugasemdir. Fyrir þá sem kafa vilja dýpra í verkefnið er boðið upp á fjölda krækja og heimilda þar sem nálgast má margs konar ítarefni.

Verkefnisstjórn telur það sameiginlega hagsmuni allra landsmanna að geta fylgst með störfum og framgangi þessa mikilvæga verkefnis og megin samskiptaleiðin verður heimasíðan, auk funda og kynninga.