Stök frétt

Fullt var út úr dyrum á ársfundi Umhverfisstofnunar sem var í senn fróðlegur og skemmtilegur. Flutt voru fjölmörg erindi um hin margvíslegu verkefni stofnunarinnar. Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra ávarpaði fundinn og ræddi meðal annars um sjálfbæra þróun og framtíðarsýn í málefnum umhverfisins á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Ráherra lagði út frá hugtakinu sjálfbær þróun í máli sínu og sagði:

„að þegar ákvarðanir eru teknar í samfélagi, sem stefnir í átt til sjálfbærrar þróunar, beri að leggja áherslu á samspil og jafnvægi vistfræðilegra-, samfélagslegra- og efnahagslegra þátta. Engin ein stoð af þessum þremur má yfirskyggja aðra, slíkt kemur í veg fyrir hið eftirsóknarverða jafnvægi.”

Einnig ræddi ráðherra um framtíðarsýn er varðar ráðuneytis- og stofnanaskipan. Í því sambandi sagði ráðherra:

„Mín sýn til framtíðar gengur út á það að umhverfisráðuneytið fái hliðstæða stöðu í Stjórnarráði Íslands og ráðuneyti fjármála og efnahagsmála.” Stefna ráðherra er að efla umhverfisráðuneytið og stofnanir þesss sem fellur vel að hugmyndum Umhverfisstofnunar.

Kristín Linda forstjóri Umhverfisstofnunar ræddi um starfið á árinu 2008 og þá miklu vinnu sem fór í stefnumótun og skipulagsbreytingar. Ræddi hún um markmið stofnunarinnar fram til ársins 2012 og mikilvægi öflugra stofnuna sem hafa burði til þess að sinna hlutverkum sínum á sama tíma og hagræðing næst fram.

Líflegar umræður fóru fram að lokum erindum hvar fundargestum gafst færi á að spyrja um málefni Umhverfisstofnunar. Fundargestir spurðu um brennisteinsvetni, bindingu gróðurhúsalofttegunda og vatnshlot svo eitthvað sé nefnt.

Erindi ársfundar