Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir Becromal Iceland ehf. til reksturs aflþynnuverksmiðju í Krossanesi, Akureyri. Í tillögunni er lagt til að rekstraraðila sé heimilt að framleiða allt að 2200 tonn eða sem nemur 10.800.000 m2 af aflþynnum fyrir rafmagnsþétta á ári hverju, með rafhúðun í 90 m3 kerjum.

Í tillögunni er lagt til að rekstraraðili þurfi að skila skýrslu um árangur við að nýta orku vel við reglubundna endurskoðun starfsleyfisins til Umhverfisstofnunar. Þá er kveðið á um að rekstraraðili yfirfari efnanotkun sína og hvort losun efna í sjó samrýmist bestu fáanlegu tækni. Sett verða losunarmörk á fráveitu hvað varða uppleyst lífræn efni (mælt sem COD), svifagnir, kvikasilfur og sýrustig og kveðið á um hámarksmagn efna sem megi geyma á lager. Auk þess er ákvæði um hámarkslosun ammóníaks.

Tillagan mun ásamt umsóknargögnum liggja frammi á skrifstofu Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, Akureyri á tímabilinu 21.apríl til 16. júní 2009. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 16. júní 2009.