Stök frétt

Mynd: Guðmundur Hörður Guðmundsson

Haldið var upp á alþjóðlega farfugladaginn á Álftanesi síðastliðinn laugardag. Boðið var upp á gönguferð og fuglaskoðun, leiðbeiningar um fuglaljósmyndun og ýmsar upplýsingar um fugla, ferðir þeirra og farleiðir.

Alþjóðlegi farfugladagurinn var haldinn í fjórða sinn í ár en að honum standa alþjóða samningurinn um flökkutegundir og bókun við hann um votlendisfugla Evrópu, Asíu og Afríku. Umhverfisráðuneytið, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Sveitarfélagið Álftanes, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Fuglavernd héldu sameiginlega upp á daginn hér á landi.

Haldið var upp á daginn á Álftanesi vegna þess að nesið er helsti viðkomustaður margæsa og rauðbristinga á vorin. Unnið er að friðlýsingu fuglasvæði á Álftanesi.

Flestir íslenskir fuglar eru farfuglar og koma hingað að verpa og ala upp unga sína. Krían er langförlust íslensku fuglanna og fer alla leið í Suður-Íshafið á hverju ári, steindeplar og maríuerlur fara til Vestur-Afríku en heiðlóan og hrossagaukurinn til Írlands.

Margar ógnir mæta fuglunum okkar jafnt á farleiðinni sem og á varp- og vetrarstöðvunum sínum. Ýmis mannvirki, t.d. háspennumöstur, fjarskiptamöstur og vindtúrbínur ásamt skotveiðum, verða mörgum fuglum að aldurtila. Hindranir á vegi farfugla var meginviðfangsefni alþjóðlega farfugladagsins í ár. Fargestir sem koma hér við að vori og hausti, t.d. margæs, grænlandsblesgæs og rauðbrystingur, eru háðir því að eiga örugga viðkomustaði á Íslandi vor og haust. Verndun helstu viðkomustaða fuglanna er því ekki síður mikilvæg en verndun búsvæða á vetrarstöðvum og í varplöndum farfugla.

Ísland er langmikilvægasta einstaka varpsvæði margra fuglategunda í heiminum, t.d. spóa með 75% Evrópustofnsins, heiðlóu 60%, kríu 60-70% og álku 75-80%.

Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt milli landa til að tryggja tilvist farfuglanna. Til að ná árangri á þessu sviði þarf virka náttúruvernd með neti friðlanda á Íslandi sem og í öðrum löndum. Friðlöndin þurfa að vera á mikilvægustu viðkomustöðunum, t.d. við Skerjafjörðinn og á Ökrum og Löngufjörum á Mýrum. Þegar er búið að friða nokkur mikilvæg farfuglasvæði eins og Grunnafjörð og Hvanneyri í Borgarfirði, Guðlaugstungur og Mývatn og Laxá. Unnið er að friðun Skerjafjarðarsvæðisins.