Stök frétt

Bjarnarkló / Heracleum mantegazzianum (Mynd: Appaloosa)
Í dag þann 22. maí er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Af því tilefni hefur Umhverfisstofnun útbúið upplýsingar á vefinn um líffræðilega fjölbreytni.

Líffræðileg fjölbreytni felur í sér alla fjölbreytni plantna, dýra og örvera, sem og fjölbreytni vistkerfa og erfðafræðilega fjölbreytni innan tegunda. Útdauði tegunda í heiminum á sér stað með ógnvænlegum hraða og er tap á líffræðilegri fjölbreytni að mestu leyti af mannavöldum.

Fræðast má um málefni líffræðilegrar fjölbreytni á vefflokknum líffræðileg fjölbreytni. Þar er meðal annars að finna sérstakar upplýsingar er varða líffræðilega fjölbreytni í náttúru norðursins.

Málefni dags líffræðilegrar fjölbreytni þetta árið eru ágengar framandi tegundir.

Jurta- og dýrategndir geta breiðst náttúrulega út á nýjum svæðum en einnig geta þær flust þangað af mannavöldum, viljandi eða óviljandi. Framandi tegundir eru tegundir sem hafa breiðst út utan náttúrulegra heimkynna sinna vegna mannlegs athæfis. Tegundir af þessu tagi geta verið til vandræða ef þær fara að keppa við eða æxlast með tegundunum sem fyrir eru, eða lifa á þeim. Þegar þær færa sig yfir á ný svæði geta þær einnig breitt út sjúkdóma og riðlað vistkerfum og búsvæðum á ýmsa vegu. Þegar náttúrulegir óvinir þeirra eru ekki lengur til staðar geta þær auðveldlega orðið ofan á í samkeppninni við tegundirnar sem fyrir eru. Ágengar framandi tegundir teljast vera önnur alvarlegasta ógnunin við líffræðilegan fjölbreytileika á hverjum stað, á eftir tapi og uppskiptingu búsvæða. Alls hafa 1.357 tegundir sem ekki eru upprunalegar tekið sér bólfestu á Norðurlöndunum, og margar þeirra ógna nú þegar líffræðilegum fjölbreytileika okkar.

Talið er að kostnaður vegna ágengra framandi tegunda sé árlega á heimsvísu um 1,4 billjón dollara. Dagur líffræðilegrar fjölbreytni er ætlaður til þess að leiða hugann að þeim miklu verðmætum sem felast í náttúru okkar og áhrifum ágengra framandi tegunda.