Stök frétt

Í síðustu viku 19. -21. maí, fór fjögurra manna leiðangur út í Surtsey til að setja upp sjálfvirka veðurathuganarstöð. Vísindamenn hafa lengi bent á nauðsyn þess að hafa veðurstöð út í eynni og að staðbundnar veðurfarsupplýsingar myndu styrkja aðrar náttúrufarsrannsóknir. Stöðinni var valinn staður sunnan við Pálsbæ og gekk vel að koma fyrir mastri sem ber allan tækjabúnað stöðvarinnar. Sjálfvirka veðurathuganarstöðin gengur fyrir sólarrafhlöðum og skráir mælingar á 10 mínútna fresti sem eru sendar í gegnum samskiptabúnað yfir í miðlægan gagnagrunn Veðurstofunnar á klukkutíma fresti. Veðurathuganarstöðin skrárir hitastig, vindátt, vindhraða, rakastig, loftþrýsting, úrkomu, jarðvegshita og sólgeislun. Gögnin eru nú þegar aðgengileg á heimasíðu Veðurstofu Íslands.

Auk veðursöðvarinnar var sett upp vefmyndavél sem mun senda myndir reglulega frá Surtsey og verða þær aðgengilegar á netinu fljótlega.

Það eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Surtseyjarfélagið sem stóðu að uppsetningu stöðvarinnar. Tækjasjóður RANNÍS veitti styrk til kaupa á tækjum og öðrum búnaði, en auk þess er verkefnið styrkt af Umhverfisstofnun, Siglingastofnun, Hafrannsóknastofnun og Vestmannaeyjabæ.

Leiðangursmenn voru Ingvar Atli Sigurðsson frá Náttúrustofu Suðurlands, Sigvaldi Árnason frá Veðurstofu Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Borgþór Magnússon, frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þeir gáfu sér tíma fyrir stutta vettvangsferð og fundu hreiður heiðlóu sem er nýr varpfugl í Surtsey og hreiður grágæsar í fyrsta sinn. Hrafninn verpti aftur í laupinn sinn frá því í fyrra og var núna með fimm unga. Þá rákust þeir á hunangsflugu á sveimi sem ekki hefur sést áður í Surtsey. Lesa má nánar um leiðangurinn á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands og á vef Náttúrustofu Suðurlands.

Björgunarfélag Vestmannaeyja sá um að flytja leiðangursmenn og allan búnað út í Surtsey.