Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi til Verne Holdings ehf. vegna reksturs varaaflstöðvar með tilheyrandi búnaði á Valhallarbraut 868, Vallarheiði í Reykjanesbæ.

Rekstaraðila verður heimilt að reka díselrafstöðvar sem sjá gagnaveri hans fyrir allt að 55 MW varaafli þar sem raforka er framleidd með fjórgengisvélum. Gagnaver af þessu tagi er húsnæði sem er sérstaklega byggt utan um tölvubúnað og tilheyrandi raf- og kælibúnað.
Við gerð tillögunnar voru kröfur um rekstur miðaðar við að þótt stöðin sé nokkuð stór aflstöð er ekki til þess ætlast hún sé keyrð nema þegar rafmagn frá Landsneti bregst. Rekstraraðila er hins vegar heimilt að prófa stöðina að uppfylltum skilyrðum sem m.a. lúta að því að prófanir skuli fara fram þegar vindur stendur frá næstu íbúðabyggð á virkum degi eftir kl. 07:00 og að þeim eigi að vera lokið fyrir kl. 19:00. Þá má nefna kröfu um að skorsteinn sé a.m.k. 15 metra hár og útblásturshraði sé a.m.k. 15 m/sek.

Rétt er að benda á að kröfur um mörk á efnum í útblæstri og mælingar á loftmengun taka tillit til þess að keyrslutími er að mati Umhverfisstofnunar of stuttur í prófunum til að fá marktækar mæliniðurstöður. Stofnunin hefur því ákveðið að miða við reglur um almenna starfshætti þar sem mælingum verður ekki við komið.
Tillagan ásamt umsóknargögnum liggur frammi á skrifstofu Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, á tímabilinu 22. júní til 17. ágúst. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 17. ágúst.

Tillaga að starfsleyfi
Starfsleyfistillaga fyrir Verne Holdings ehf.

Umsókn og fylgiskjöl
Starfsleyfisumsókn
Fylgiskjöl