Stök frétt

Umhverfisstofnun vill vera til fyrirmyndar og leiðandi í umhverfismálum og hefur sett sér það markmið að starfsemi stofnunarinnar valdi hvorki skaða í náttúrunni né neikvæðum áhrifum á umhverfið. Með það markmið að leiðarljósi festi stofnunin nýlega kaup á lítilli rafmagnsvespu fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár. Landverðir munu nota vespuna á eftirlitsferðum um verndarsvæðið og með því næst hvort tveggja, hagkvæmni í rekstri og lágmarks áhrif á umhverfið t.d. með tilliti til útblásturs og hávaða.

Starfsmenn Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit geta nú „þeyst“ um verndarsvæðið á allt að 45 kílómetra hraða á klukkustund á mjög svo hljóðlátan og vistvænan máta. Hver hleðsla dugar milli 40-50 km og því er hægt að aka hringinn í kringum Mývatn á einni hleðslu. Með kaup á vespunni sparast peningar á krepputímum, enda mun ódýrara að halda úti rafknúinni vespu en bifreið og þar sem orkugjafinn er íslenskt rafmagn í stað innflutts eldsneytis verður útstreymi gróðurhúsalofttegunda ekkert.