Stök frétt

Í blaðaviðtali í Morgunblaðinu sunnudaginn 12. júlí síðastliðinn er fullyrt að Umhverfisstofnun „hafi gerst sek“ um að hafa mismunað umsækjanda af erlendum uppruna við ráðningu í starf lögfræðings fyrir um ári síðan. Stjórnendum stofnunarinnar þykir miður að slíkum fullyrðingum sé varpað fram án frekari athugunar. Nýleg niðurstaða Umboðsmanns Alþingis er sú að Umhverfisstofnun hefði ekki gerst sek um mismunun gagnvart umræddum umsækjanda.

Umsækjandi um starf lögfræðings var ósáttur við vinnubrögð Umhverfisstofnunar við ráðningu í starf lögfræðings og taldi að sér hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernisuppruna. Leitaði hann álits Umboðsmanns Alþingis en athugun umboðsmanns leiddi ekkert í ljós sem getur gefið tilefni til að ætla að afgreiðsla málsins af hálfu Umhverfisstofnunar hafi verið áfátt af þessum sökum. Þá var ekkert sem leiddi i ljós að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi ekki verið hæfastur til að gegna því. Í þessu sambandi þarf að hafa skilgreiningu í starfið og auglýsinguna sjálfa í huga, þ.e. eftir hvers konar þekkingu var verið að óska.

Hjá Umhverfisstofnun starfa nú 63 fastráðnir starfsmenn í afar fjölbreyttum störfum, sem krefjast mikillar þekkingar. Starfsemin er á sjö stöðum á landinu. Margbreytileiki er því lykilþema í starfsmannamálum stofnunarinnar. Við starfsráðningar eru störf skilgreind með það í huga hvers konar þekkingu er þörf fyrir hverju sinni miðað við fyrirliggjandi verkefni og þá þekkingu sem fyrir er. Hjá Umhverfisstofnun hafa starfað og starfa starfsmenn af erlendum uppruna. Eru þeir kærkominn liðsauki hjá stofnun, sem státar af háu menntunarstigi starfsfólks, jöfnu kynjahlutfalli, mismunandi uppruna/bakgrunni fólks og dreifðri starfsemi.