Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands bs. að Kirkjuferjuhjáleigu, Sveitarfélaginu Ölfusi, og gildir það til 13. júlí 2025. Starfsleyfið veitir Sorpstöðinni heimild til að reka urðunarstað með sama hætti og verið hefur, þ.e. urðun allt að 30 þúsund tonna á ári af almennum og óvirkum úrgangi. Í starfsleyfinu er nánari útlistun á þeim skilyrðum sem úrgangurinn þarf að uppfylla til að urðun hans sé heimil og þeim starfsháttum sem Sorpstöðinni er skylt að viðhafa til að lágmarka mögulega mengun frá starfseminni. Jafnframt eru í starfsleyfinu ákvæði er lúta að reglubundnu eftirliti með mengun frá urðunarstaðnum, t.d. mælingum á útstreymi hauggass og á efnasamsetningu sigvatns frá staðnum og árvatns og –sets í Ölfusá fyrir neðan hann.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að nýju starfsleyfi á tímabilinu 14. apríl – 12. júní 2009 og bárust átta athugasemdir við tillöguna, þar af voru fimm samhljóða undirskriftalistar.

Meðal helstu athugasemda má nefna athugasemd við það að fyrir liggi samningur á milli Sorpstöðvarinnar og Sveitarfélagsins Ölfuss um að hætta beri starfsemi í byrjun desember nk. og því skjóti það skökku við að starfsleyfi sé veitt til 16 ára. Starfsleyfisskyld fyrirtæki þurfa að uppfylla ýmis skilyrði til að halda úti sínum rekstri á lögmætan hátt, svo sem að hafa gilt starfsleyfi, starfa innan marka skipulags og hafa leyfi landeiganda. Hins vegar er ekki skylda við útgáfu starfsleyfa að önnur skilyrði séu uppfyllt við útgáfu þess. Skilyrði er varða skipulag eru í höndum viðkomandi sveitarfélags en skilyrði er varða mengunarálag í höndum Umhverfisstofnunar.

Gerðar voru athugasemdir við það magn sem leyft verður að urða á svæðinu til næstu 16 ára með vísan til gildandi skipulags. Eins og áður segir eru ýmis skilyrði sem starfsleyfisskylt fyrirtæki þarf að uppfylla, þar á meðal er varða skipulag en þeir þættir koma ekki við sögu þegar Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi, heldur eru á borði viðkomandi sveitafélags og Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun leggur mat á mengun frá urðunarstaðnum og hversu miklu magni hann getur tekið við miðað við aðbúnað og aðstæður, án þess að frá honum stafi mengunarhætta. Allt sigvatn frá urðunarstaðnum er hreinsað áður en það er leitt í Ölfusá. Rennsli hreinsaðs sigvatns frá urðunarstaðnum er alla jafna innan við 2 L/s á meðan meðalrennsli Ölfusár við Selfoss er um 375.000 L/s og lágmarksrennsli um 200.000-250.000 L/s. Það má því reikna með að þynning hreinsaðs sigvatns sé að meðaltali ekki lægri en 187.500-föld eftir að það hefur blandast árvatninu að fullu og aldrei minni en 100.000-föld. Umhverfisstofnun veitir í starfsleyfi heimild til urðunar á ákveðnu magni úrgangs en viðkomandi sveitastjórn hefur heimildir til frekari takmörkuna bæði hvað varðar magn og tímalengd.

Nánar er fjallað um ofangreindar athugasemdir og aðrar athugasemdir í greinargerð sem fylgir ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins.

Skjöl

Starfsleyfi Sorpstöðvar Suðurlands

Greinargerð með ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins – athugasemdir og viðbrögð við þeim