Stök frétt

Starfsmenn Umhverfisstofnunar kynntu tillögu að starfsleyfi og fulltrúi frá Elkem Ísland kynnti sjónarmið fyrirtækisins.

Eftir kynningarnar voru umræður um tillögu að starfsleyfi og umhverfisáhrif vegna reksturs verksmiðjunnar á Grundartanga. Fundarmenn höfðu áhuga á mörgum hliðum umhverfismálanna, ekki síst í ljósi þess að fyrirhuguð er stækkun verksmiðjunnar með nýrri einingu fyrir sólarkísilframleiðslu. Fram kom gagnrýni á útlit og lit verksmiðjunnar. Spurt var um hugmynd um að setja hámarksálag á ofna, til að lágmarka ryklosunum orkunýtingu, urðun í flæðigryfjur, fráveitumál og dreifingu á ryki og hvort fyrir liggi dreifingarútreikningar. Jafnframt var spurt um framkvæmd mengunarmælinga og hver framkvæmdi þær. Þá var rætt um rykmengun og heilsufarsáhrif þess, til dæmis á starfmenn.

Af þeim svörum sem fram komu á fundinum má nefna að útlit og frágangur verksmiðjunnar er ekki á sviði starfsleyfisútgáfu Umhverfisstofnunar nema ef um er að ræða hugsanlega mengun til umhverfisins. Umhverfisstofnun telur ekki að ákvæði um hámarksálag á ofna séu í raun mengunarvarnir og vill frekar setja kröfur um losun til umhverfis. Farið var yfir það hvernig fylgst er með flæðigryfjum og umhverfisáhrifum af þeim auk vöktunar í sjó. Fram kom að losun í sjó getur verið betri kostur en losun á sömu efnum í loft ef um er að ræða efni sem eru í sjó fyrir. Greint var frá því að utan verksmiðjulóðar giltu almenn ákvæði reglugerða um rykmengun sem Umhverfisstofnun fylgir eftir. Mengunarmælingar eru framkvæmdar af aðilum sem stofnunin samþykkir. Hins vegar væri það ekki hlutverk Umhverfisstofnunar að sinna vinnuverndarmálum og því ekki fylgst með áhifum mengunar á starfsmenn af hálfu stofnunarinnar.