Stök frétt

Umhverfisstofnun vill vekja athygli á því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf nýlega út í fyrsta skipti leiðbeiningar um loftgæði innandyra, sem snúa fyrst og fremst að raka og myglu. Á síðasta ári hélt Umhverfisstofnun námskeið um innivist með áherslu á sveppa- og mygluskemmdir í húsnæði. Kjell Anderssonn yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Örebro í Svíþjóð hélt þar fyrirlestur hvar farið var yfir hættuna af slíkum skemmdum og til hvaða ráða eigi að grípa. Vonast er til þess að samræmdar leiðbeiningar WHO muni nýtast vel til þess að bæta loftgæði innandyra.

Leiðbeiningar WHO eru afrakstur tveggja ára ítarlegrar yfirferðar 36 sérfræðinga á heimsvísu á opinberum rannsóknaniðurstöðum, sem fyrir liggja á þessu sviði. Sérfræðingarnir komast að þeirri niðurstöðu að þeir sem starfi eða búi í raka- og/eða mygluskemmdu húsnæði, hvort sem eigin eða opinberu, séu í meiri hættu á því að fá einkenni öndunarerfiðleika og astma. Lagðar eru til í leiðbeiningunum fyrirbyggjandi aðgerðir eða viðgerðir á raka- og mygluskemmdum til þess að draga marktækt úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna.

„Þar sem fólk ver stærstum hluta lífs síns á heimili, skrifstofu, skóla, heilbrigðisstofnun og öðrum byggingum skipta gæði loftsins sem það andar að sér þar miklu máli fyrir heilsu þess og velferð,“ segir Dr. Srdan Matic, sviðsstjóri hjá WHO í Evrópu. „Í fyrsta skipti höfum við leiðbeiningar fyrir stjórnvöld til að tryggja öryggi og heilnæmt umhverfi í byggingum. Við teljum að þessi vinna muni leiða af sér bætta heilsu fólks um allan heim.”

Leiðbeiningarnar eru þær fyrstu í röð rita frá WHO er varða gæði lofts innandyra. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar til notkunar á heimsvísu til að vernda heilsu við mismunandi umhverfis-, félags- og efnahagslegar aðstæður. Frekari útgáfa er væntanleg sem mun meðal annars taka á ýmsum efnum í umhverfi manna. Leiðbeiningarnar mynda saman fyrstu ítarlegu tillögurnar sem byggja á rannsóknargögnum til að takast á við loftmengun innandyra. Slæm loftgæði innandyra er meðal helstu orsakavalda sjúkdóma á heimsvísu.

Um ein og hálf milljón dauðsfalla, að mestu meðal kvenna og barna í þróunarríkjum, eru tengd bruna á eldsneyti í föstu formi innandyra.

Mörg lönd ESB eiga í vandræðum með raka í húsnæði, jafnvel 20-30% heimila. Traustar vísbendingar benda til þess að raki í byggingum stofni heilsu fólks í hættu. Við slíkar aðstæður vaxa hundruð tegunda baktería og sveppa innandyra og gefa frá sér gró, frumubrot og efni út í loftið. Innöndun eða snerting við þessi aðskotaefni hefur verið tengd við nýgengi eða að einkenni öndunarfærasjúkdóma,, ofnæmi, astmi og ónæmisviðbrögð ágerist. Börn eru sérlega viðkvæm fyrir slíkum áhrifum.

Þekking á mengunarvöldum innandyra er lykillinn að því að koma í veg fyrir tengd heilsuáhrif og viðhalda hreinu lofti. Stjórnun á loftgæðum innanhúss krefst annarrar nálgunar en notuð er við stjórnun loftgæða utanhúss.

Leiðbeiningar um loftgæði innandyra

Líffræðilegir þættir sem geta haft áhrif á heilsu fólks eru fjölbreytilegir, allt frá frjókornum og gróum plantna til baktería, myglu, þörunga og nokkurra frumdýra sem er að finna bæði úti og inni. Það eru sterkar vísbendingar um hættu sem stafar af nokkrum líffræðilegum þáttum sem menga inniloft. Þrátt fyrir það var niðurstaða WHO vinnuhópsins sú að ekki væri hægt að greina hvaða tegundir örvera eða annarra líffræðilegra þátta hafi áhrif á heilsu fólks. Þetta stafar af því að oft verður fólk fyrir áreiti frá svo mörgum þáttum samtímis og vegna þess hvað flókið er að ákveða magn þeirra. Einnig vegna mismunandi heilsufarseinkenna sem geta komið fram.

Það var því ekki hægt að setja fram leiðbeiningar eða við mið um magn tiltekinna lífræðilegra þátta, en í stað þess voru samdar leiðbeiningar í þeim tilgangi að vernda heilsu og ákvarða áhættuþætti með því að skilgreina vísa, eins og t.d. raka, um loftgæði innandyra.  Þannig skilgreina leiðbeiningarnar vandamál og kringumstæður sem geta valdið áhættu, en innihalda ekki viðmið um ásættanlegt magn líffræðilegra þátta. Tilgangur leiðbeininganna er að hjálpa heilbrigðisyfirvöldum og almenningi að greina áhættu og draga úr henni. Fyrst og fremst er litið til þess að greina vandann, til dæmis hvort raki sé í húsnæði og þá ákveða um viðgerð á skemmdum og hvernig megi loka fyrir leka.

Umhverfisstofnun mun á næstunni birta almennar leiðbeiningar um loftgæði innandyra.

Skjöl

Leiðbeiningar fyrir almenning um raka og myglu

Skýrsla WHO um loftgæði innandyra

Vefsvæði WHO um loftgæði og heilsu