Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt nýlega tvo samráðs- og upplýsingarfundi með fulltrúum íslenskra flugrekenda um nýlega löggjöf ESB um viðskipti með losunarheimildir. Á fundunum var fjallað um áhrif tilskipunar 2008/101/EB sem felur í sér að frá 1. janúar 2012 verður allt flug innan ESB og milli ESB og þriðju ríkja háð losunarheimildum. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn og hefur því ekki verið innleidd hér á landi. Engu að síður er þörf á að hefja þegar tilteknar undirbúningsaðgerðir, m.a. upplýsingasöfnun um flugrekendur, flugleiðir og losun gróðurhúsalofttegunda, til að tryggja megi hagsmuni flugrekenda hér á landi.

Á fyrri fundinn voru boðaðir flugrekendur sem fljúga eingöngu innanlands eða milli Íslands og ríkja utan ESB. Á síðari fundinn voru boðaðir íslenskir flugrekendur sem starfa á ESB-svæðinu. Ástæða þessa að flugrekendum var skipt í framangreinda hópa er að aðkoma þeirra að viðskiptakerfi ESB er ólík. Flugrekendur sem starfa á ESB-svæðinu eru nú þegar orðnir þátttakendur í kerfinu og þurfa að afhenda eftirlitsáætlanir og upplýsingar um starfsemi sína til þess aðildarríkis ESB þar sem stærsti hluti starfsemi þeirra fer fram. Undirbúningsaðgerðir þessara flugrekenda vegna tilskipunarinnar eru því hafnar. Íslenskir flugrekendur sem fljúga ekki til ESB munu á hinn bóginn ekki verða þátttakendur í viðskiptakerfinu fyrr en tilskipun 2008/101/EB hefur verið innleidd hér á landi. Umhverfisstofnun hefur engu að síður hvatt þá til þess að hefja nauðsynlegar undirbúningsaðgerðir sem miða að því að tryggja hagsmuni þeirra eins og kostur er og auðvelda innleiðingu tilskipunarinnar þegar þar að kemur.

Fulltrúar flestra flugrekenda sem skráðir eru hér á landi mættu á fundina, auk fulltrúa umhverfisráðuneytis, samgönguráðuneytis, Flugmálastjórnar Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Umhverfisstofnun þakkar flugrekendum fyrir gagnlegar umræður og vonast til þess að eiga við þá gott samstarf um málefni tengd viðskiptakerfinu á næstu árum.

Glærur frá fundunum