Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt opinn kynningarfund í bæjarstjórnarsal Ráðhúss Akureyrar þann 7. október sl. þar sem kynnt var tillaga að nýju starfsleyfi Flokkunar Eyjafjarðar ehf. fyrir urðunarstað félagsins á Glerárdal. Guðmundur B. Ingvarsson hélt stutta kynningu þar sem fjallað var almennt um starfsleyfi og sjálfa tillöguna. Starfsleyfið mun heimila Flokkun urðun allt að 12 þúsund tonna af almennum og óvirkum úrgangi á ári og mun það verða gefið út til tveggja ára. Ætlunin er að loka og ganga frá stærstum hluta urðunarsvæðisins á Glerárdal en opna um leið nýjan og minni urðunarstað innan svæðisins og mun nýtt starfleyfi veita heimild til urðunar þar. Þegar hið nýja starfsleyfi fellur úr gildi er stefnt að lokun og endanlegum frágangi svæðisins og mun þá urðun úrgangs hætt á Glerárdal. Hér að neðan er yfirlit yfir helstu breytingar, frá fyrra starfsleyfi, sem nýtt starfsleyfi hefur í för með sér á urðunarstaðnum:

Umfang starfseminnar

  • Heimild til urðunar fer úr 20 þús. tonnum á ári í 12. þús. tonn.
  • Heimild til geymslu úrgangs sem ætlaður er til endurnýtingar.

Ákvæði um tryggingar

  • Lögð skal fram trygging eða ábyrgð fyrir því að staðið verði við þær skyldur sem starfsleyfinu fylgja í 30 ár eftir lokun urðunarstaðarins.
  • Lögð skal fram ábyrgðartrygging til að standa straum af kostnaði sem hlotist getur af mögulegu bráðamengunartjóni.

Ákvæði um gjaldtöku fyrir urðun úrgangs

  • Rekstraraðili skal innheimta gjald fyrir urðun úrgangs og skal það standa undir öllum kostnaði við rekstur og eftirlit í 30 ár í kjölfar lokunar.

Sigvatn

  • Komið skal í veg fyrir að óhreinsað sigvatn berist í Sigurðargil.

Yfirborðsvatn

  • Mæla skal efnasamsetningu Glerár einu sinni á ári og ársets einu sinni á starfsleyfistímanum, hvort tveggja fyrir ofan og neðan urðunarstaðinn.

Hauggas (uppfylla skal eftir 16. júlí 2011)

  • Starfrækja skal kerfi til söfnunar hauggass.
  • Magn og samsetningu hauggass skal mæla mánaðarlega.

Móttaka og skráning úrgangs

  • Gerðar frekari kröfur um mat á úrgangi við móttöku hans.
  • Gerð krafa um skráningu á uppruna úrgangs sem tekið er við.

Fyrir hönd Umhverfisstofnunar sóttu kynningarfundinn Guðmundur B. Ingvarsson og Gunnlaug Einarsdóttir.

Frestur til að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna er til 13. nóvember nk. en þær skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun.