Stök frétt

Miðvikudaginn 21. október var haldinn opinn fundur um fyrirhugaða friðlýsingu Skerjafjarðar í samræmi við náttúruverndaráætlun. Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands kynntu sérstöðu svæðisins með tilliti til fuglalífs, mikilvægis opinna svæða fyrir menn og málleysingja ásamt því hvað felst í friðlýsingu. Í tillögu að friðlýsingarskilmálum sem unnin hefur verið í samráði við bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness er gert ráð fyrir því að strendur og grunnsævi sveitarfélagsins ásamt hafsvæði þar fyrir utan allt að 10 m dýptarlínu verði friðlýst sem búsvæði fugla. Einnig er gert ráð fyrir friðlýsingu Bessastaðaness sem er mikilvægt varpsvæði þúfutittlings, spóa, jaðrakan, hrossagauks, stelks, heiðlóu, tjalds og lóuþræls. Mikilvægi friðunar Skerjafjarðar og Álftaness byggir á komu fargestanna, margæsar og rauðbrystings sem nýta svæðið sér til viðurværis á leið sinni til og frá varpstöðvum. Lögð var áhersla á verðmæti þess að hafa opin náttúruleg svæði fyrir heilsu og vellíðan. Bent var á mikilvægi garða eins og Central Park í New York og Hyde Park í London.

Sérstaklega var farið yfir drög að friðlýsingarskilmálum þar sem mörkum fyrirhugaðs verndarsvæðis og reglum fyrir það er lýst. Í skilmálunum er gert ráð fyrir hefðbundnum nytjum svo sem verið hefur, uppbyggingu smábátahafnarinnar á Breiðabólstaðanesi og að aðgengi almennings verði bætt t.d. með stígum þar sem það á við og uppsetningu fræðsluskilta. Verndargildi svæðisins felst meðal annars í fræðslu og er svæðið kjörið til útikennslu.

Gagnlegar umræður fóru fram á borgarfundinum um fyrirhugaða friðlýsingu. Kom m.a. fram að svæðið nyti hverfisverndar sbr. samþykkt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness og töldu sumir fundarmenn það vera nægjanlegt til verndar fuglalífinu. Heimamenn bentu á að verið væri að fjalla um 1/3 lands sveitarfélagsins og því brýnt fyrir íbúa að vita hvert væri t.d. svigrúm til framkvæmda. Nokkuð var rætt um möguleika fyrir ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar í sveitarfélaginu með eða án friðlýsingar. Þá veltu menn því einnig fyrir sér hver réttur almennings verður í kjölfar friðlýsingar t.d. um Bessastaðanes, en á varptíma æðarfugls er svæðið lokað fyrir almennri umferð, hvort þá verði unnt að halda opnum göngustíg meðfram ströndinni sem er hluti af stígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Beinum fyrirspurnum og vangaveltum var svarað á fundinum og var t.d.bent á að markmið friðlýsingarinnar væri auk þess að vernda búsvæði fugla, fjölbreytt gróðurlendi og jarðmyndanir væri að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem samrýmist verndun búsvæða fugla. Hvað framkvæmdir varðar sem ekki eru nú þegar á staðfestu aðalskipulagi sveitarfélagsins mun Umhverfisstofnun í samvinnu við heimamenn vinna að gerð verndaráætlunar fyrir svæðið þar sem nánari útfærsla verður á framkvæmdum vegna viðhalds og einnig framkvæmdum í þágu útivistar og fræðslu.