Stök frétt

Vegna inflúensufaraldursins sem nú geisar eru gæludýraeigendur hvattir til að huga að því hvernig þeir eru í stakk búnir að bregðast við ef margt eða allt heimilisfólk veikist samtímis. Inflúensufaraldurinn sem ríður yfir um þessar mundir er tiltölulega vægur en allur er varinn góður. Ýmislegt annað getur einnig valdið því að margir á sama heimili eða vinnustað forfallist, t.d. náttúruhamfarir. Gæludýraeigendur þurfa að tryggja að þeir hafi möguleika á að koma dýrum sínum í fóstur til skamms tíma eða að minnsta kosta tryggja að nægjanlegar birgðir af fóðri og öðru sem nauðsynlegt er fyrir gæludýrin sé til á heimilinu. Best er að vinir, vandamenn eða nágrannar hjálpist að og undirbúi sig fyrir að leysa hver annan af.

Gott er að gera skriflega viðbragðsáætlun þar sem fram koma m.a. eftirtaldar upplýsingar:

  • Nöfn, heimilisföng og símanúmer þeirra sem leita má til.
  • Upplýsingar um veikindi, burði og aðra mikilvæga þætti varðandi gæludýr sín.
  • Leiðbeiningar um fóðrun.
  • Upplýsingar um fóður, s.s. staðsetningu og birgðir.

Ítarlegar upplýsingar um einkenni inflúensu, smitvarnir og fleira.