Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt kynningarfund þann 3. nóvemberí Saltfisksetrinu þar sem kynnt var tillaga að starfsleyfi fyrir Carbon Recycling International ehf. til að endurvinna koldíoxíð úr útblæstri í Svartsengi, Grindavíkurbæ. Umræður voru gagnlegar og góðar.

Rekstraraðila verður heimilt að vinna metanól úr allt að 16 tonnum á dag af koldíoxíði en það mun þýða að framleiðslan nemi allt að 10 tonnum á dag af endanlegri vöru.

Við samningu á tillögunni var tekið tillit til þess að verksmiðjan er á ýmsan hátt á tilraunastigi, enda þótt sumt henni viðkomandi sé vel þekkt tækni, eins og rafgreining á vatni til að framleiða vetni. Lögð er áhersla á að öll geymsla og meðferð á metanóli verði í góðu horfi og að haldin verði rekstrarhandbók sambærileg þeim sem er gerð krafa um í starfsleyfum olíubirgðastöðva. Í þessu sambandi eru gerðar kröfur um ástandsskoðun, lekavarnir, þrýstiprófanir og þess háttar.

Gefinn er árs frestur til að koma með endanlega útfærslu á hreinsum alkóhóls úr frárennsli og þar er horft til þess að útfærsla slíkrar hreinsunar er einmitt hluti af því sem tilraunin á að fjalla um. Umhverfisstofnunin telur ekki að umhverfi stafi hætta af því því að leyfa óhreinsaðri fráveitu að fara í jarðveginn í takmarkaðan tíma. Metanól brotnar hratt niður auk þess sem svæðið er jafnframt þegar raskað vegna jarðvarmavirkjunar í Svartsengi.Einnig má nefna kröfu um að notaðir hvatar fyrir efnahvörf séu sendir í endurvinnslu.
Fram kom á fundinum að Skipulagsstofnun hefur gert athugasemd vegna starfsleyfisins.


Tillagan ásamt umsókn mun liggja frammi á bæjarskrifstofu Grindavíkurbæjar til og með 18. desember 2009 en hana má einnig nálgast hér á vef Umhverfisstofnunar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 18. desember 2009 og skulu þær sendar til Umhverfisstofnunar og vera skriflegar.