Stök frétt

Rjúpa í vetrarbúning.
Nokkuð hefur borið á fréttum í fjölmiðlum af óhóflegum rjúpnaveiðum og utanvegaakstri á yfirstandandi rjúpnaveiðitímabili og að auki hefur stofnunin fengið ýmsar ábendingar um sama efni. Af þeirri ástæðu vill Umhverfisstofnun hvetja veiðimenn til að ástunda hófsama veiði eins og þeir hafa gert undanfarin ár.

Mun fleiri sótt sér veiðikort en undanfarin ár og má því reikna með að virkum veiðimönnum fjölgi að sama skapi. Miðað við þennan aukna fjölda má gera ráð fyrir að um 6.000 manns gangi til rjúpna í ár en undanfarin ár hafa það verið um 4.500 manns. Mikilvægt er að veiðimenn sýni sömu hófsemi við veiðar nú eins og undanfarin ár.

Umhverfisstofnun áréttar að akstur utan vega og vegaslóða er bannaður. Þegar haldið er til veiða má eingöngu aka eftir vegum og viðurkenndum vegaslóðum. Ekki er leyfilegt að hlaða skotvopn fyrr en gengið hefur verið a.m.k. 250 metra frá vélknúnu farartæki og aldrei má skjóta á, frá eða yfir vegi. Óheimilt er að flytja skotvopn á fjórhjólum, vélsleðum eða öðrum torfærutækjum, jafnvel þó ekið sé á vegum og vegaslóðum.

Þá hefur Umhverfisstofnun fengið nokkrar ábendingar um hugsanlega sölu á rjúpum. Umhverfisstofnun hefur tilkynnt það til lögreglu enda er sala á rjúpum og rjúpnaafurðum bönnuð.

Myndband um hófsamar veiðar á rjúpu.