Stök frétt

Norræna umhverfismerkið Svanurinn varð 20 ára þann 6. nóvember, en ákvörðun um stofnun merkisins var tekin af Norrænu ráðherranefndinni þann dag árið 1989. Svanurinn hefur náð ótrúlegum árangri á tuttugu árum og er leiðandi umhverfismerki á Norðurlöndum og víðar. Merkið er einnig eitt besta dæmið um vel heppnað norrænt samstarf.

Framtíðarsýn Svansins er sjálfbært samfélag með sjálfbæra framleiðslu og neyslu. Neytendur og innkaupaðilar sem velja umhverfismerkt stýra markaðnum í átt að sjálfbærni og lágmarka heildarumhverfisáhrif samfélagsins. Í dag er hægt að Svansvotta yfir 60 vöru- og þjónustuflokka, þar á meðal þvottaefni, pappír, tölvur, hótel, veitingastaði, ræstiþjónustu, vistvænt eldsneyti o.fl. o.fl.

Um 70% Íslendinga þekkja Svaninn og hefur merkið náð góðum árangri í ár, enda hafa borist 12 umsóknir um Svansmerkingu til Umhverfisstofnunar. Fjögur íslensk leyfi eru í gildi í dag auk þess sem vitað er um a.m.k. 150 erlendar Svansmerktar vörur á markaðnum. Framtíðarsýn Svansins á Íslandi er að geta boðið Íslendingum gott úrval af innlendum Svansmerktum vörum og þjónustu. Árið 2010 verður 20 ára afmælisár Svansins og verður afmælinu m.a. fagnað með mörgum nýjum leyfum á Íslandi.